Fiat lægstur í CO2

Fiat hefur þegar náð að koma meðal CO2 útblæstri frá bílum sínum  niður fyrir 130 g pr. kílómetra. Evrópulög um þetta mæla fyrir um að bílaframleiðendur skulu hafa náð þessu marki í síðasta lagi árið 2015. Fiat er því rúmlega fimm árum á undan áætlun.

Fiat hefur lengi haft góð tök á vélatækninni og vélar Fiat eru yfirleitt sparneytnar. Þá hafa tæknimenn Fiat verið mjög framarlega í  því að búa til búnað og tækni sem stuðlar að betri eldsneytisnýtingu, meira afli pr. sprengirúmtak og eldsneytissparnaði. Gott dæmi er samrásarinnsprautun dísilvéla og nú síðast Multi-Air tækni fyrir bensínvélar sem einmitt er sýnd á bílasýningunni í Frankfurt sem nú stendur yfir, en sú tækni sparar verulega eldsneyti án þess að aflið minnki.

http://www.fib.is/myndir/Alfaromeo_mito.jpg
Alfa Romeo mi-to með Multi-Air tækni

 

En það er ekki alfarið vélatækninni að þakka að Fiat hefur náð 130 gramma meðaltalsmarkinu né heldur því að smábílar eru stórt hlutfall af framleiðslu Fiat, heldur munar mestum það að Fiat framleiðir mikið af bílum sem brenna gasi í stað bensíns. Eftirspurn eftir gasknúnum bílum hefur verið að aukast og Fiat hefur komið myndarlega til móts við hana. Á fyrri helmingi ársins seldi Fiat t.d. 65 þúsund gasbíla, aðallega stóra en einnig smáa í bland. Meðal CO2 útblástur þessara gasbíla er einungis 115,8 g pr. kílómetra.

 Könnunarfyrirtækið Jato sem safnar og heldur utanum tækniupplýsingar frá öllum helstu bílaframleiðendum í Evrópu. Samkvæmt niðurstöðum Jato hefur Fiat afgerandi forystu í því að draga úr eldsneytiseyðslu og CO2 útblæstri bílanna. Á fyrri helmingi ársins var meðalútblástur þeirra Fiatbíla sem seldust á tímabilinu 129,1 g pr. kílómetra. Einn af framkvæmdastjórum Fiat, Lorenzo Sistino segir við fjölmiðla að 130 gramma meðaltalið sé engin framtíðarmúsík fyrir Fiat nú þegar þeir hafi náð markinu sem bílaframleiðendum var gert að ná fyrir árslok 2015. En þetta þýði þó alls ekki það að nú verði slegið slöku við. „Við munum halda áfram að vinna að og innleiða tækni sem á eftir að gera enn betur en þetta,“ segir Sistino. Hann segir að Multi-Air tæknin verði staðalbúnaður í stöðugt fleiri gerðum Fiatbíla í allra nánustu framtíð.

Meðalútblástur CO2 hjá 10

stærstu bílaframleiðendum Evrópu

Fiat (129,1 g/km)

Toyota (132,9 g/km)

Peugeot (134,5 g/km)

Citroën (138,1 g/km)

Renault (138,9 g/km)

Ford (140,4 g/km)

Opel (149,5 g/km)

Volkswagen (152,5 g/km)

Audi (162,6 g/km)

Mercedes (178,8 g/km)