Fiat Netverslun með bíla

Gianluca Italia forstjóri Fiat á Ítalíu.
Gianluca Italia forstjóri Fiat á Ítalíu.

Fiat Chrysler Automotive – FCA hefur í samvinnu við Amazon opnað nýbílasölu á Netinu. ,,Það er löngu kominn tími til að bjóða neytendum upp á nýjan, öflugan og gagnsæjan kost í kaupum á nýjum bíl,“ sagði Gianluca Italia forstjóri Fiat á Ítalíu á blaðamannafundi þar sem nýja netbílasalan var kynnt.

FCA er með þessu fyrsti bílaframleiðandinn í Evrópu til að hefja sölu á nýjum bílum á Internetinu.  Netbílasala Fiat verður fyrst um sinn hýst hjá netverslunarrisanum Amazon og einungis verða í boði  megingerðirnar Fiat 500, Fiat 500L og Fiat Panda í nokkrum útfærslum hver megingerð. Kaupendur geta valið þá útfærslu og þann lit sem þeim hugnast. Þeir borga síðan bílinn í gegn um netsíðuna. Þegar bíllinn svo er tilbúinn þá hefur Amazon samband og gefur kaupanda kost á að velja hjá hvaða söluumboði Fiat hann vill fá bílinn afhentan skráðan og tilbúinn til notkunar. Litið er á þessa Fiat netverslun sem tilraun og nær hún einungis til Ítalíu að sinni.