Fiat og Chrysler að sameinast?

http://www.fib.is/myndir/FiatChrysler.jpg
Sameinast þeir?

Ráðamenn Fiat og Chrysler sitja nú við samningaborð og semja um tvennt: Um nána tæknisamvinnu og skipti á tæknihlutum og tækniþekkingu annarsvegar, og hins vegar um að Fiat eignist allt að 35 prósenta hlut í Chrysler. Gangi saman með mönnum er ljóst að báðir aðilar munu hafa  ávinning af; Fyrir Fiat opnast dyr að sölukerfi Chryslers í Bandaríkjunum fyrir bæði Fiat og Alfa Romeo bíla og hiða hrjáða fyrirtæki, Chrysler, fær afnot að kunnáttu Fiat í því að byggja smá- og meðalstóra bíla og að véla-, ekki síst dísilvélatækni Fiat.

Í áranna rás hefur Fiat og Alfa Romeo gert nokkrar tilraunir til að ná fótfestu á bandaríska bílamarkaðinum og þeim kanadíska en mistekist jafn oft og tapað stórum á tilraununum. Í samningaviðræðunum nú er hins vegar gert ráð fyrir því að Fiat og Alfa Romeo verði boðnir til sölu hjá söluumboðum fyrir Chrysler, Dodge og Jeep. Líklegt er talið að Fiat verði seldur á sölustöðvum fyrir Jeep og Dodge en Alfa Romeo verði á sölustöðvum fyrir Chrysler.

Í Evrópu gera bílafjölmiðlar ráð fyrir því að Chrysler bílar verði boðnir til sölu á sölustöðvum Fiat. Með aðgangi að tækni og tæknikunnáttu Fiat muni fljótlega verða þróaðar nýjar gerðir lítilla, minni og meðalstórra Chryslerbíla sem  sumir hverjir verði byggðir í verksmiðjum Fiat. Verkalýðsfélög starfsmanna Chrysler í Bandaríkjunum hafa þegar samþykkt þessar fyrirætlanir.

Samstarf sem þetta sem þarna er að fæðast millli Detroit og Torino á Ítalíu hefur sífellt verið að verða algengara í bílaiðnaðinum undanfarin ár. Fiat er þegar í samvinnu við ýmsa aðra framleiðendur. Meðal þeirra eru Ford, Suzuki og Tata í Indlandi og S. Ameríku.