FÍB afsláttur af aðalskoðun einkabíla

Tékkland bifreiðaskoðun hefur bæst í hóp samstarfsaðila FÍB og veitir nú félögum 15% afslátt af reglubundinni skoðun einkabíla. Fyrirtækið er nýtt og hóf starfsemi sína þann 20. maí sl. þegar fyrsta stöð fyrirtækisins var opnuð að Reykjavíkurvegi 54 í Hafnarfirði. Fyrirtækið hefur nú opnað aðra starfsstöð við Holtagarða og hyggst opna sína þriðju stöð við Borgartún 24. Markmið Tékklands er að veita viðskiptavinum sínum samkeppnishæf verð og bjóða þeir nú um 10-15% lægra verð en tíðkast hefur á þessum markaði hingað til. Vefsíða Tékklands bifreiðaskoðunar er www.tekkland.is.

FÍB félagar njóta einnig afsláttarkjara hjá skoðunarstöðvum Frumherja og Aðalskoðunar og hvetjum við félaga til að nýta afsláttarkjör sín hjá þessum þremur skoðunarstöðvum.

Verðskrár fyrirtækjanna þriggja má finna á eftirtöldum heimasíðum:
http://adalskodun.is/Thjonusta/Verdskraskodunarthjonustu/
http://frumherji.is/Thjonusta/Bifreidaskodanir/Verdskra/
http://tekkland.is/verd/

FÍB vill nýta tækifærið og minna félaga á að fara með bifreiðir sínar í reglubundna aðalskoðun á tilsettum tíma:

- Ökutæki, skráð hér á landi, utan dráttarvéla og torfærutækja, skal færa til aðalskoðunar í þeim mánuði sem síðasti tölustafur á skráningarmerki ökutækisins vísar til. Þannig skal ökutæki með skráningarmerki sem endar á 1 fært til skoðunar í janúar og ökutæki með skráningarmerki sem endar á 0 fært til skoðunar í október.

- Hafi ökutæki einkamerki sem endar á tölustaf þá segir það númer til um skoðunarmánuðinn. Ef einkanúmerið endar hinsvegar á bókstaf skal færa ökutækið til skoðunar í fimmta mánuði ársins, þ.e. maí.

- Færa skal eftirtalin ökutæki til aðalskoðunar fyrir 1.október á skoðunarári:
1.Fornbifreið
2.Húsbifreið
3.Bifhjól, þ.m.t. fornbifhjól og létt bifhjól
4.Hjólhýsi (fellihýsi)
5.Tjaldvagn

- Heimilt er að færa ökutæki til skoðunar allt að 6 mánuðum fyrr á almanaksárinu og 10 mánuðum fyrr, hafi ökutækið gilda skoðun sem fram fór fyrir 1. nóvember liðins árs.

- Ef ekki hefur gefist kostur á að færa ökutækið til almennrar skoðunar í skoðunarmánuði þess skal það í síðasta lagi fært til skoðunar fyrir lok annars mánaðar þaðan í frá. Að þeim tíma liðnum leggst vanrækslugjald (15.000 krónur) á ökutækið. D: Á ökutæki með 5 (eða bókstaf) í endastaf skráningarmerkis leggst vanrækslugjald á 4.ágúst 2010. Á ökutæki með 6 í endastaf skráningarmerkis leggst vanrækslugjald á 1.september 2010.

Skoða má reglugerð um skoðun ökutækja með því að smella hér.

Og um innheimtu vanrækslugjalds hér.