FÍB blaðið á leið til lesenda

http://www.fib.is/myndir/Bladid-juliforsida07.jpg

FÍB blaðið, 2. tölublað þessa árs verður dreift til félagsmanna næstu daga.Að vanda er FÍB blaðið efnisríkt og meðal efnis er viðtal við Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sem jafnframt er ráðherra neytendamála. Björgvin kemur víða við og boðar m.a. átak í neytendamálum og telur sjálfsagt og eðlilegt að auka framlög til vegamála. Breytingarnar hjá Verði tryggingum hf og tryggingakjör FÍB félaga eru meðal innihalds í viðtali við Guðmund Jóhann Jónsson framkvæmdastjóra Varðar. 

Vörður tryggingar hf er nýtt nafn á Verði Íslandstryggingu hf sem skipti um eigendur í nóvember sl. Vörður (Íslandstrygging/Vörður Íslandstrygging) hefur verið með samstarfssamning við FÍB í tæp 5 ár um hagstæð iðgjöld til handa félagsmönnum undir nafninu FÍB Trygging.

Í vor óskaði FÍB eftir tilboðum frá íslensku vátryggingafélögunum um hagstæð tryggingakjör fyrir félagsmenn. Hagstæðasta tilboðið kom frá Verði tryggingum. Nýr samningur um FÍB Tryggingar verður undirritaður á næstu dögum og um leið verða kjörin kynnt fyrir félagsmönnum. Fram kemur í viðtalinu að forsvarsmenn Varðar trygginga telja það afar mikilvægt að hafa náð að endurnýja samstarfssamning við FÍB og að ætlunin sé að gera betur við þennan hóp en áður.

ADAC, hið þýska systurfélag FÍB prófar árlega barnabílstóla og barnaöryggisbúnað sem er á markaði á evrópska efnahagssvæðinu. Niðurstaða könnunarinnar er í nýja FÍB blaðinu. Þessi könnun er ómissandi lesning fyrir þá sem aka með börn í bíl.

Í blaðinu er frétt um stórhækkaða álagningu olíufélaganna á dísilolíu. Þeirri spurningu er varpað upp hvort þetta geti talist eðlilegir viðskiptahættir. Álagningin í liðnum júnímánuði var yfir 8 krónum hærri á hvern lítra af dísilolíu samanborið við meðalálagninguna árið 2006.

Af öðru efni blaðsins má nefna bílaprófanir, innlendar og erlendar fréttir tengdar bílum umferð og umferðaröryggismálum. FÍB blaðið er einn af kostum félagsaðildar að FÍB og er dreift til félagsmanna þeim að kostnaðarlausu. Blaðið er ekki á almennum markaði.