FÍB hlýtur Umferðarljósið 2010

FÍB hlýtur að þessu sinni Umferðarljósið 2010. Umferðarljósið er viðurkenning Umferðarráðs sem veitt er þeim einstaklingum eða öðrum þeim sem unnið hafa gott starf að umferðaröryggismálum. Það var Ögmundur Jónasson samgönguráðherra og sr. Karl V. Matthíasson sem afhentu verðlaunin við upphaf umferðarþings í gær. Steinþór Jónsson, formaður FÍB tók við verðlaununnum þar ásamt Ólafi Kr. Guðmundssyni varaformanni og Runólfi Ólafssyni framkvæmdastjóra FÍB.

Sigurður Helgason, framkvæmdastjóri Umferðarráðs, kynnti niðurstöðu úthlutunarnefndarinnar á umferðarþingi og forsendur verlaunaveitingarinnar. Hann sagði að FÍB hefði allt frá stofnun félagsins árið 1932 nánast óslitið sinnt umferðaröryggismálum. Nú síðustu ár hefðu umferðaröryggismál verið áberandi í starfsemi félagsins og tíðum umfjöllunarefni FÍB blaðsins og vefsíðu FÍB. Félagið ætti einnig gott samstarf um umferðaröryggismál við ýmsa aðila, bæði innlenda og erlenda um hvaðeina er verða mætti til framfara í umferðaröryggismálum þjóðarinnar. Nú síðast hefði félagið átt mikið samstarf við yfirvöld samgöngu- og vegamála í landinu sem og ýmis fyrirtæki og stofnanir um að öryggismeta íslenska vegakerfið.

http://www.fib.is/myndir/Umferdarljos.jpg
Við móttöku Umferðarljóssins 2010. Frá vinstri Ólafur Kr. Guðmundsson og Runólfur
Ólafsson FÍB, Steinþór Jónsson formaður FÍB, Karl Matthíasson formaður Umferðarráðs
og Ögmundur Jónasson samgönguráðherra.

FÍB er þakklátt fyrir þann sóma sem félaginu er sýndur með þessari verðlaunaveitingu. Hann er fyrst og fremst félagsmönnum að þakka, sem alla tíð hafa staðið og standa enn þétt að baki forystu og starfsfólki félagsins.