FÍB hvetur Neytendastofu til að taka á ófremdarástandi á bílastæðum

FÍB hefur óskað eftir aðgerðum af hálfu Neytendastofu vegna ófremdarástands við gjaldtöku á bílastæðum.

Í kvörtun FÍB er dæmi tekið af bíleiganda sem var krafinn um vanrækslugjald þrátt fyrir að hafa þá þegar verið búinn að borga fyrir stæðið. FÍB telur innheimtufyrirtæki bílastæða varpa ábyrgð af óskýrleika í greiðsluöppum með ósanngjörnum hætti á herðar neytenda. FÍB segir fjölda félagsmanna hafa haft samband til að kvarta undan vanrækslugjöldum sem þeir fá vegna þess að bílastæði óskyldra aðila liggja hlið við hlið og auðvelt að ruglast á þeim.

Í bréfinu til Neytendastofu telur FÍB að margt í vinnubrögðum innheimtufyrirtækjanna flokkist undir villandi og óréttmæta viðskiptahætti.

FÍB beinir gagnrýni sinni sérstaklega að fyrirtækinu Parka lausnum ehf, sem rekur Parka appið, og systurfyrirtæki þess Myparking ehf, sem rekur fjölmörg bílastæði í einkaeigu. Myparking ehf sendir kröfu um vanrækslugjöld í heimabanka bíleigenda án nokkurra skýringa eða upplýsinga um fyrirtækið. Auðvelt er að ruglast á bílastæðum óskyldra aðila í Parka appinu. Þá leggja skilmálar Parka appsins alla ábyrgð á herðar notenda og standast ekki kröfur um góða viðskiptahætti. Neytendastofa er hvött til að kanna réttmæti þessara skilmála.

Áður hefur FÍB bent á vaxandi græðgisvæðingu á bílastæðum í einkaeigu, þar sem farið er að innheimta háar fjárhæðir fyrir afnot bílastæða allan sólarhringinn. Og eftir því sem þrengir að bílastæðum í miðborg Reykjavíkur hækka bílastæðagjöldin. Í bílakjallara Hafnartorgs kostar hver klukkutími 660 kr og vangreiðslugjald er komið í 7.500 kr. Mikill ruglingur myndast þegar bílum er ekið á milli bílakjallara Hafnartorgs og Hörpu og hafa bíleigendur fengið fjárkröfur vegna þess. Víða skortir verðupplýsingar, þrátt fyrir lagaskyldu þar um.

Þá hefur FÍB gagnrýnt frumskóg greiðsluleiða fyrir bílastæði. Engin ein greiðsluleið virkar í öll bílastæði eða bílahús. Bíleigendur þurfa að hlaða niður a.m.k. fjórum mismunandi öppum og skrá greiðslukort sín í þau. FÍB telur þetta flækjustig greiðsluleiða koma í veg fyrir samkeppni og gangi því gegn hagsmunum almennings.