FÍB Land Rovernum stolið

Um sl. helgi, einhverntíman á tímabilinu frá laugardagskvöldinu 6. sept. til mánudagsmorgunsins 8. sept. var númerslausum Land Rover jeppa stolið af bílastæðinu bak við húsið Skúlagötu 19 í Reykjavík.

Land Rover bíllinn er blár að lit með hvítu húsi, árgerð 1967, mjög áþekkur þeim sem myndin hér að ofan er af, nema að á honum var toppgrind. Hann var lengst af í eigu Bílaleigu Akureyrar en síðan hafa tveir hinna landsþekktu Álftagerðisbræðra átt bílinn.

http://fib.is/myndir/Fib-LandR.jpg
http://fib.is/myndir/Fib-LandR2.jpg
Svona litu þeir út, vegaþjónustu-Land Rover bílar FÍB
á árunum 1960-1970.

Fyrir nokkru var hann gefinn FÍB og til stóð að gera hann upp og útbúa hann og merkja sem þjónustubíl FÍB eins og þeir voru á árunum 1960-1970 og átti sú vinna að hefjast fljótlega. Aðili á Reykjanesi sem komið hefur upp vönduðu bíla- og vélasafni hugðist láta vinna það verk í samstarfi við FÍB og varðveita bílinn síðan í safninu.

Bíllinn stóð sem fyrr segir á bílastæði Sæbrautarmegin við höfuðstöðvar FÍB að Skúlagötu 19 og var ógangfær og ekki á númerum auk þess sem hægra framdekk var loftlaust. Ljóst er því að talsvert umstang hefur verið að fjarlægja hann og hefur það trúlega verið gert með því að draga hann upp á einhvers konar bílaflutningatæki; vagn eða flutningabíl.

Þeir sem kunna að hafa séð þegar bíllinn var fjarlægður eða hafa einhverja vitneskju um hvarf hans, eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við lögregluna í Reykjavík og/eða við FÍB í síma 414 9999 eða um netfangið fib@fib.is

 

 

 

 

 

 

 

 

Uppfært föstudaginn 12.sept kl. 13.30

Land Roverinn er fundinn og það í heilu lagi. 

Bíllinn var tekinn í góðri trú og unnið er að úrlausn málsins. 
FÍB vill þakka öllum þeim fjölmörgu sem sendu inn ábendingar auk lögreglunnar á Selfossi.
Ný vefmyndavél lögreglunnar á Selfossi gerði lögreglunni kleift að fylgja eftir ábendingum samborgara og fá botn í málið. 

http://www.fib.is/myndir/logreglusellfossmyndavel.jpg
Ný vefmyndavél lögreglunnar á Selfossi sannaði því gildi sitt og eykur einnig öryggi vegfarenda.