FÍB leitar að holum með aðstoð almennings í gegnum vefgátt

,,Umræðan um þessi mál fer alltaf af stað á þessum árstíma. Við erum fá hringingar og ábendingar frá félagsmönnum og öðrum sem lent hafa í tjónum þegar þeir lenda harkalega í holum. Við erum í reglulegu sambandi við Vegagerðina og aðra veghaldara varðandi þessi mál en því miður er það venjan að fyrsti maður ber tjónið," sagði  Björn Kristjánsson hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, í spjalli um holur í útvarpsþætti á Bylgjunni.

Eins og kom fram er núna sá árstími og það tíðarfar sem eykur hættuna á holumyndunum á þjóðvegum. Þegar þíða kemur í kjölfar frosts og kulda eða þegar miklir umhleypingar eru eykst hættan á því að holur myndist í bundnu slitlagi, malbiki og klæðingu. Vegfarendur er því beðnir að sýna sérstaka árvekni og aka ætíð eftir aðstæðum.

Björn sagði að til  að stemma stigu við þetta var fyrir nokkrum árum hrundið af stað svonefndu holuappi þar sem ökumenn gátu tilkynnt á auðveldan hátt þegar þeir urðu varir við holur. Það reyndist vel en nú erum við að vinna í því að koma þessu á næstu stig með enn bættu samstarfi við Vegagerðina og aðra sem hafa umsjón með vegum vítt og breitt um landið. Tilkynning um holur yrði því umsvifalaust komið til vegahaldara á því svæði sem tilkynningin barst. Allar boðleiðir styttast til muna.

 ,,Það er mjög mikilvægt fyrir okkur ökumenn að nýta þetta og geta tilkynnt um holur áður en þær valda tjóni. Um verður að ræða nokkurskonar vefgátt, vefsíðu, og myndi nýtast við GPS staðsetningarbúnaðinn þinn í símanum. Þar getur viðkomandi staðsett sig, sent inn myndir með nánari upplýsingum. Allt er þá orðið skrásett og hægt að rekja til baka ef einhver tjón verða í framhaldinu,“ sagði Björn Kristjánsson hjá FÍB. Unnið er að uppsetningu umræddrar vefgáttar og er vonast eftir að hún verði tekin í gagnið fljótlega.

 Viðtalið við Björn Kristjánsson í heild sinni má nálgast hér.