FÍB reynsluakstur á VW Golf

http://www.fib.is/myndir/Winterkorn.jpg
Dr. Martin Winterkorn stjórnarformaður Volkswagen í Bláfjöllum.

Volkswagen  Golf er víst orðinn langlífasta bílgerð bílasögunnar og sú sem byggð hefur verið í flestum eintökum. Lengi átti Gamli-Ford, Ford T þetta met, síðan kom Volkswagen bjallan og þá Golfinn. Frá því VW Golf kom fram á sjónarsviðið á áttunda áratugi síðustu aldar og tók við kyndlinum af VW bjöllunni hafa rúmlega 26 milljón Golf bílar verið framleiddir. Nú er kannski ofsögum sagt að um sama bílinn sé að ræða því að þessi nýjasti sjöttu kynslóðar Golf á afar fátt sameiginlegt með fyrsta Golfinum nema nafnið og kannski svipmótið að einhverju leyti.

Um þessar mundir er verið að frumkynna þennan nýja bíl á Íslandi fyrir blaðamönnum úr flestum heimshornum. Þá verður hann frumsýndur almenningi á bílasýningunni í París sem opnuð verður undir lok mánaðarins. Hann kemur svo fyrst á markað í Þýskalandi og öðrum ríkjum á meginlandi Evrópu í októbermánuði. Hann verður fáanlegur til kaups í Afríku, Asíu, Ástralíu og Bandaríkjunum fyrir áramót og á Íslandi verður hann til sölu frá og með janúar á næsta ári.

Hinn nýi Golf er nánast nýr bíll frá fyrri kynslóð þótt ekki sjáist það á ytra útlitinu í fljótu bragði.  Svipmótið með þeim eldri er mjög sterkt og Golf er áfram auðþekktur og greinir sig skýrt frá öðrum bílum í þeim stærðarflokki sem einmitt er kenndur við bílinn og nefnist Golf-flokkurinn. Á kynningunni í Bláfjöllum lögðu bæði hönnuður bílsins, Ítalinn Walter de Silva, og stjórnarformaðurinn dr. Martin Winterkorn áherslu á að þótt Golf yrði áfram auðþekktur í útliti væri um nýjan bíl að ræða. Undirvagn hans er nýr og yfirbygging og innrétting sömuleiðis, vélar og gírkassar eru að mestu nýtt og mikil áhersla er lögð á vöruvöndun og ríkulegan búnað auk hóflegrar eldsneytiseyðslu.

Blaðamenn FÍB reynsluóku fyrst Golf með 122 ha. TSI-bensínvél en síðan samskonar bíl með 160 ha. TSI-bensínvél. Í raun er um sömu vél að ræða með mismunandi útfærslu á eldsneytis- og brunakerfum og forþjöppum eða túrbínum.  Rúmtak þeirra beggja er einungis 1,4 lítrar þannig að segja má að aflið, sérstaklega þó þeirrar kraftmeiri, sé með nokkrum ólíkindum. Í báðum bílunum var nýjasti DSG gírkassinn sem er sjö gíra. Hægt er að hafa hann í hreinum sjálfskiptiham eða þá að skipta sjálfur milli gíra ýmist með gírstönginni sjálfri eða með flipum á stýrinu. Hægri flipinn er til að skipta upp en sá vinstri til að skipta niður. Hinir mörgu gírar gera það mögulegt að velja ávallt þann gír sem best hæfir hraða bílsins í það og það skiptið, eða auðvitað að aka í sjálfskiptihamnum og láta stjórntölvu bílsins um þetta. Með þessum nýju vélum og dísilvélum með samrásarinnsprautun eldsneytisins sögðu Volkswagenmenn í Bláfjöllum að nýju Golf bílarnir ættu að vera að jafnaði 28 prósentum sparneytnari en fyrirrennarinn.

 Nýi Golfinn er afsprengi mikillar uppstokkunar og endurskipulagningar framleiðsluferla í verksmiðjum Volkswagen. Þannig er botnplata bílsins ný og sameiginleg með fleiri gerðum VW bíla. Öll framleiðsla og samsetning bílanna hefur verið einfölduð í því skyni að lækka framleiðslukostnað á hvern bíl. Skilja mátti á þeim ráðamönnum sem kynntu bílinn að þessi hagræðing ætti ekki eftir að skila sé í lægra verði til kaupenda heldur fengju kaupendur nú vandaðri og betur búna bíla en áður fyrir sama pening og að ætlunin væri að setja ný viðmið í þessum flokki bíla í þeim efnum.

Ýmis búnaður sem áður hefur verið að finna í vönduðum og dýrum bílum er nú ýmist staðalbúnaður eða þá fáanlegur í Golf. Í reynsluakstursbílunum báðum var t.d. skriðstillir og ESC stöðugleikabúnaður  sem verður staðalbúnaður í öllum gerðum Golf. Í báðum voru einnig GPS leiðsögukerfi með íslenska vega- og gatnakerfinu, ágæt hljómtæki með Bluetooth- tækni fyrir farsíma og tengingum fyrir i-Pod spilara og rauf fyrir minniskort, sjálfvirkt hita-/kælikerfi, fjarlægðarskynjarar og sjálfvirk fjarlægðarstýring sem heldur góðu bili milli bíla og sjónvarpsmyndavél sem sýnir á skjá í mælaborðinu hvort eitthvað sé fyrir aftan bílinn þegar bakkað er.

Nánar verður greint frá reynsluakstrinum á hinum nýja VW Golf í síðasta tölublaði FÍB blaðsins á þessu ári. Það kemur út í desember nk.
http://www.fib.is/myndir/NirGOlfVI3.jpg http://www.fib.is/myndir/NyrGolfVI2.jpg

http://www.fib.is/myndir/NyrGolfVI4.jpg http://www.fib.is/myndir/NyrGolf1.jpg