FÍB telur góða afkomu tryggingafélaga gefa tilefni til að lækka iðgjöld

Góð afkoma stærstu tryggingafélaganna í landinu ætti að gefa tilefni til að lækka iðgjöld en þetta er meðal annars sem kemur fram í viðtali við Runólf Ólafsson, framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, í Fréttablaðinu í dag.

Runólfur segir að miðað við þessar tölur sem nú eru að koma fram um jákvæða afkomu tryggingafélaganna, þá virðist ganga töluvert betur með vátryggingastarfsemina og þar vega til að mynda bílatryggingar einna þyngst.

Á sama tíma höfum við verið að horfa upp á það að iðgjöld ökutækjatrygginga hafa verið að hækka langt umfram vísitölu. Þannig að það er sýn Runólfs að það sé tilefni til lækkunar á iðgjöldum ökutækjatrygginga.

Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að stærstu tryggingafélög landsins högnuðust um 4,8 milljarða króna á fyrri árshelmingi 2017. Um er að ræða verulegan viðsnúning milli ára en á sama tímabili í fyrra högnuðust félögin um 2,1 milljarð króna.

„Á einu ári hefur vísitala ábyrgðatryggingar hækkað um sex prósent og við erum innan þriggja prósenta viðmiðunarmarka Seðlabankans í sambandi við verðlagsþróun almennt. Þannig að þetta hefur hækkað langt umfram þróun verðlags," segir Runólfur.

„Á sama tíma er vísitala reksturs eigin bifreiðar sex prósentum lægri en hún var fyrir ári síðan. Þannig að það er klárlega lag til að koma til móts við almenna bílaeigendur," segir Runólfur í viðtalinu.

Hér má sjá fréttina í Fréttablaðinu í heild sinni.