Fimm nýir Nevs-rafbílar

Nevs (áður Saab) í Trollhättan í Svíþjóð virðist vera að komast í gang á ný. Hið kínversk-sænska fyrirtæki boðar nú fimm nýja bíla, alla rafknúna. Einn þessara boðuðu bíla er reyndar gamalkunnur, en það er Saab 9-3 (sjá mynd) enda mun hann birtast fyrstur. Hinir eru allir ný hannaðir. Þeir eru tveir jepplingar, einn fjölnotabíll og loks sportbíll.  

Sá fyrsti þessara nýju rafbíla, gamli Saabinn, á að koma á almennan markað um mitt árið 2017 að því er forstjórinn, Matthias Bergmann sagði á bílasamkomu í Stokkhólmi nýlega. Saab 9-3 verður m.a. með nýjustu tækni í rafgeymum og hleðslubúnaði, sem og rafmótorum.

Nýhönnuðu bílarnir sem síðar munu fylgja í kjölfarið verða allir byggðir á Phoenix undirvagninum sem var hannaður hjá Saab á þeim tíma sem Hollendingurinn Victor Müller eigandi sportbílaframleiðandans Spyker stjórnaði Saab. Allir þessir (mis)-nýju rafbílar verða framleiddir á tveimur stöðum, annarsvegar í Trollhättan, en líka í kínversku borginni Tianjin.

Matthias Bergman sagði að samningaviðræður stæðu yfir við rétthafa Saab nafnsins um að nota það á sænskbyggðu bílana. Rétthafinn sem er flugvélaframleiðandinn Saab hafði áður bannað Nevs að skreyta bíla sína með því. Samkvæmt nýjustu frétt sem FÍB hefur borist frá Nevs hafa verið undirritaðir samningar milli Nevs og kínversks kaupleigufyrirtækis sem heitir Panda New Energy Ltd um að Nevs byggi 150 þúsund Saab 9-3 rafbíla fram til ársins 2020..