Fisker Karma stallbakur og sportbíll

http://www.fib.is/myndir/Fisker_Karma_34rear.jpg

Auk fjögurra sæta lúxusbílsins Fisker Karma sýnir danski bílahönnuðurinn Henrik Fisker í Detroit sportbílsútfærslu þessa nýja rafmagns- eða tvinnbíls sem brátt er að fara í framleiðslu í Finnlandi. Sportbílsútfærslan er sérlega fallegur bíll, enda er Henrik Fisker enginn aukvisi – hann teiknaði á sínum tíma BMW Z8 sportbílinn og hinn fræga Aston Martin DB9 og Aston Martin Vantage V8 og loks Lincoln Zephyr fyrir Ford í Detroit

Fisker Karma bílarnir nýju, bæði stallbakurinn og sportbíllinn eru með sama vélbúnað. Báðir eru tengiltvinnbílar. Tveir  210 hestafla rafmótorar knýja þá áfram. Þeir sækja rafmagnið í 26 kílóvattstunda líþíumrafgeyma frá Quantum Industries. Bílarnir komast 80 km á fullhlöðnum geymunum einum, en í bílnum er  auk þess 2,0 l, 260 ha. Ecotec  túrbínubensínvél frá GM. Þessi vél knýr rafal sem framleiðir straum inn á geymana og getur haldið þeim fullhlöðnum í langleiðaakstri á hraðbrautum. Þegar komið er í áfangastað er bílnum stungið í samband við venjulegan ljósatengil.http://www.fib.is/myndir/Fisker_blaejub.jpg

Bílarnir eru vel viðbragðssnöggir. Viðbragðið úr kyrrstöðu í hundraðið er 5,8 sekúndur og bílarnir geta haldið 210 km ferðahraða á klst. langtímum saman.

Fisker Karma bílarnir verða byggðir í samsetningarverksmiðju Valmet traktoraverksmiðjanna í Finnlandi þar sem áður voru byggðir Saab 900 og 9000 bíla og nú síðast Porsche Boxter og Cayman. Stallbaksgerðin mun kosta 87 þúsund dollara en ekki hefur verið gefið upp hvað sportútgáfan mun kosta.