Fisker lofar mesta dræginu

Henrik Fisker kynnir frumgerð nýs rafbíls.
Henrik Fisker kynnir frumgerð nýs rafbíls.

Danski bílahönnuðurinn Henrik Fisker og höfundur bíla eins og BMW Z8 og Aston Martin DB9 boðar nú nýjan rafbíl og lofar því að hann verði sá langdrægasti til þessa.

Fisker var orðinn einn virtasti bílahönnuður veraldar þegar hann hellti sér út í framleiðslu á lúxusbílnum Fisker Karma. Karma var rafbíll á sama hátt og Chevrolet Volt -. knúinn rafmótor og með rafgeyma. En þegar lækka tók á rafgeymunum tók innbyggð bensínrafstöð við sem framleiddi straum inn á geymana. Fisker Karma ævintýrið stóð skammt. Einungis náðist að framleiða fáeinar þúsundir bíla áður en fyrirtækið varð gjaldþrota. Nú á kínverskt fyrirtæki framleiðsluréttinn á bílnum. Það eignaðist ekki Fisker nafnið við kaupin á þrotabúina á sínum tíma. Því heitir bíllinn Karma Revero hjá Kínverjunum. Karma Revero og hefur ekki verið á markaði utan Kína.

Nú virðist Henrik Fisker hafa náð vopnum sínum á ný og boðar langdrægasta rafbíl bílasögunnar. En miðað við hversu hröð tækniþróunin er í heimi rafbílanna um þessar mundir mætti ætla að Fisker þurfi að hafa hraðann á áður en einhver annar verður fyrri til með eitthvað enn betra. En Fisker kveðst vera á fullri ferð í undirbúningnum vestur í Kaliforníu með nýtt fyrirtæki sem heitir Fisker Inc. og með nýja rafgeymatækni. Í fréttatilkynningu segir að fullhannaðar séu tvær bílgerðir; önnur þeirra stór stallbaksfólksbíll sem verði langdrægasti rafbíll heims. Bíllinn verði frumsýndur strax á næsta ári og hann eigi eftir að velgja Tesla S duglega undr uggum. Hin gerðin sé minni bíll svipaður að stærð og hinn væntanlegi Tesla Model 3. Áætlað verð hans verði í kring um 40 þús dollarar en drægið meira en hjá Chevrolet Bolt /Opel Ampera-e sem sagður er komast 500 km á hleðslunni.

Talsmaður tæknideildar Fisker Inc. Hefur greint Bloomberg fréttastöðinni frá því að þeir hafi dottið niður á nýja rafhlöðutækni sem auki verulega orkurýmd rafhlaðanna. Þessi bættu afköst náist m.a. með nano-tækni og notkun nýrra efna, m.a. í pólum rafhlaðanna og fleiri hlutum þeirra. Allt þetta þýði að rafhlöðurnar verði mun léttari og sterkari en áður. Tilraunir sem þegar hafi verið gerðar sýnir að stærri bíllinn væntanlegi geti komist yfir 600 kílómetra á einni hleðslu og að þær muni endast allan líftíma bílsins hið minnsta.