Fisker tengiltvinnbíllinn í Detroit

http://www.fib.is/myndir/Fisker_Karma_34rear.jpg

Fisker Automotive, bílaframleiðslufyrirtæki danska bílahönnuðarins Henning Fisker, sýnir tengiltvinnbílinn Karma á bílasýningunni í Detroit sem hefst formlega 12 janúar. Bíllinn verður sýndur í framleiðslumynd, en frumgerð hans var sýnd á síðustu Detroit-sýningu. Eins og við höfum áður greint frá hér, verður bíllinn framleiddur hjá Valmet í Finnlandi.

Fisker Karma verður sýndur í tveimur útgáfum í Detroit; sem fjögurra sæta lúxusfólksbíll og sem blæjubíll. Innviðir beggja gerða eru þeir sömu og afgjafinn er tveir samtals 408 ha. rafmótorar með 1.300 Newtonmetra vinnslu frá því þeir byrja að snúast. 

Nánari upplýsingar um bílinn hafa verið af fremur skornum skammti hingað til, en Henning Fisker hefur boðað til blaðamannafundar þegar sýningin verður opnuð blaða- og fréttamönnum þann 15. janúar nk.

Það litla sem spurst hefur út um þennan fyrsta lúxus-tengiltvinnbíl er að rafmótorarnir tveir drífa afturhjólin beint. Enginn gírkassi er þar í milli. Hvor mótor um sig er 150 kW að afli. Rafhlöðurnar sem sjá mótorunum fyrir orku eru líþíum jónarafhlöður og eru í gólfi farþegarýmisins. Rýmd þeirra er samtals 22,6 kílóWattstundir. Þær geta skilað mest 500 amperum við 400 volta spennu sem dugir vel til að skutla þessum 2,1 tonns þunga bíl í hundraðið á 5,8 sekúndum. Þar vegur auðvitað þungt hin óheyrilega mikla vinnsla eða togkraftur sem er sem fyrr segir 1.300 Newtonmetrar allt frá því mótorarnir byrja að snúast og þar til þeir ná fullum snúningi. Bíllinn er einungis 1,33 m á hæð og með mjög lága loftmótstöðu. Hámarshraðinn er 200 km á klst.

Með fullhlaðna geyma í upphafi notkunar kemst Fisker Karma 80 kílómetra vegalengd.  Það er þó dálítið misjafnt eftir bæði ökulagi og aðstæðum. Líklega er vegalengdin meiri í borgarakstri því að þegar hemlað er breytist hreyfiorkan í rafmagn sem hleðst inn á geymana. Og ef sólin skín framleiða sólsellur á þakinu einnig rafstraum inn á geymana.

Bandarískar rannsóknir sýna að flestir bíleigendur aka minna en 80 kílómetra á dag að meðaltali. Þessvegna telur Henning Fisker að flestum nægi að aka á því rafmagni sem hleðst inn á geymana yfir nóttina úr venjulegri heimilisinnstungu. En sé ekið lengra í einu er í bílnum bensínknúin ljósavél frá GM þannig að heildar vinnuhringur fullhlaðinna rafgeyma og með fullan bensíntak er góðir 500 kílómetrar.

Ljósavélin er 2000 rúmsm bensínvél frá GM sem fyrr segir. Hana er m.a. að finna í Opel GT. Vélin er 260 hestafla og snýr stórum rafali. Þegar hún er í gangi gengur hún alltaf á sama snúningshraða svo að eyðslan sé sem jöfnust og minnst og mengun sömuleiðis. Burðarvirki Fisker Karma bílsins er álprófílagrind (space frame) klædd plötum úr áli og plasti.

Fisker Karma fimm metra langur og tveggja metra breiður en mjög lágur sem fyrr segir, eða svipað og Porsche 911. Henning Fisker hannaði sjálfur bílinn en meðal þekktra hönnunargripa hans eru Aston Martin DB9 og BMW Z8.

Reiknað er með því að Fisker Karma komi á markað í Bandaríkjunum í nóvember nk. en undirbúningur undir framleiðsluna hjá Valmet í Finnlandi stendur nú sem hæst. Hann á síðan að koma á Evrópumarkað undir mitt næsta ár. Áætlað verð á bílnum í Bandaríkjunum er tæplega 90 þúsund dollarar. Líklegt verð í Evrópu liggur enn ekki fyrir en búast má við að það skýrist eitthvað á bílasýningunni í Genf í marsmánuði nk.