Fjármálaráðherra hugnast vel tillögur FÍB

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að tillögur Félags íslenskra bifreiðaeigenda um kílómetragjald á bifreiðaeigendur í samræmi við þá vinnu sem stendur yfir í fjármálaráðuneytinu. Hann hugnist vel tillögur FÍB um breytingar á gjaldtöku af bifreiðaeigendum.

Fjármálaráðherra segir ennfremur tímabært að allir sem nota vegakerfið taki þátt í að greiða fyrir þá notkun. Þetta kom fram í viðtali við ráðherra í hádegisfréttum RÚV.

Eins og fram hefur komið kynnti FÍB í byrjun vikunnar tillögu um kílómetragjald sem komi í stað núverandi tekjuöflunar ríkissjóðs af eldsneyti á ökutæki. FÍB hefur þróað reikniformúlu fyrir kílómetragjald sem endurspeglar raunveruleg afnot allra ökutækja af vegakerfinu en mætir um leið þörf fyrir orkuskipti í samgöngum.

Kílómetragjaldið geti jafnframt komið í stað kostnaðarsamra áforma um sérstaka gjaldtöku vegna nýframkvæmda. Á vefsíðu FÍB er reiknivél sem gerir bíleigendum kleift að sjá hvernig kílómetragjald kemur út.

Fram kom í máli fjármálaráðherra á Alþingi í gær að eigendur rafmagnsbíla gætu ekki ekið frítt um göturnar mikið lengur og boðaði breytingar.

Fjármálaráðherra sagðist hafa átt fundi með FÍB og tillögur þeirra séu mjög í þeim anda sem ráðuneytið hefur verið að vinna. Margr af því sem FÍB hefur verið að tefla fram að undanförnu fellur vel að þeim undirbúningi sem við erum með í gangi.