Fjöðrunin framleiðir straum

Hjá þýsku gírkassaverksmiðjunni ZF er nú verið að þróa nýja gerð af fjöðrun (dempurum) fyrir bíla sem framleiðir rafmagn. Nýja fjöðrunarkerfið nefnist Genshock og er samvinnuverkefni ZF og bandarísks fyrirtækis sem heitir Levant Power

Kerfið er þeirrar náttúru að því meiri hreyfing sem er á fjöðrunum, þeim mun meira rafmagni skilar búnaðurinn. Ef t.d. vegur sem ekið er um er ósléttur og öldóttur framleiðir fjöðrunin mikinn rafstraum. Sé vegur hins vegar rennisléttur er framleiðslan minni.

Sú raforka sem verður til með þessum hætti er ætluð til þess að knýja raftæki bílsins eins og ljós, rúðuvindur og miðstöðvarblásara o.fl. og létta þannig á rafali bílsins og þar með að draga úr eldsneytiseyðslunni.

ZF gefur ekkert út um það hvernig nákvæmlega Genshock kerfið virkar eða hversu afkastamikið það er. En það vinnur nokkurnveginn þannig að þegar hjólin fjaðra hreyfast dempararnir með og leitast við að dempa niður sveiflurnar. Við það  verða þrýstingsbreytingar inni í þeim sem nýttar eru til þess að knýja rafal sem framleiðir straum inn á geymi bílsins.

Stúdentar við MIT tækniháskólann í Boston bjuggu til árið 2009 svipað kerfi og settu í Hummer jeppa með ágætum árangri. Raforkan sem úr því fékkst var næstum jafn mikil og frá hefðbundnum riðstraumsrafal (alternator) bílsins.