Fjöldaframleiddir efnarafalsbílar

 Vera kann að dagsins 26. febrúar sl. verði minnst sem merkisdags í bílasögunni þegar fram líða stundir. Þennan dag runnu nefnilega af færiböndunum hjá Hyundai í Kóreu fyrstu fjöldaframleiddu vetnisrafbílarnir af gerðinni Hyundai ix35. Í þeim er efnarafall sem breytir vetni í rafstraum sem knýr bílana. Fyrstu bílarnir voru þegar pantaðir og eru reyndar þegar þetta er ritað komnir í áfangastaði í Danmörku og Svíþjóð.

Hyundai ix35 með efnarafal er nánast eins í útliti og sami bíll með hefðbundnum brunahreyfli. En þegar skyggnst er undir yfirborðið kemur í ljós nýtæknin sem margir telja að eigi framtíðina fyrir sér , enda er útblástur frá bíl af þessu tagi algerlega laus við mengun – einungis vatnsgufa frá efnarafalnum.  „Með þessum bíl tekur Hyundai mikilvægt skref inn í framtíðina. Með honum er það loks staðfest að vetni til að knýja venjulegar bifreiðar er ekki lengur draumsýn heldur raunveruleikiinn sjálfur,“ sagði Eok Jo Kim framkvæmdastjóri hjá Hyundai Motor við athöfn í verksmiðjunni þegar fyrsti efnarafalsbíllinn, hvítur ix35 rann af færibandinu.

Umræddir efnarafalsbílar eru skilgreindir sem fjöldaframleiðslubílar þótt framleiðslan sé að sönnu ekki nein ósköp. Áætluð framleiðsla á þeim á þessu og næsta ári er eitt þúsund bílar sem allir eiga að fara í langtímaleigu til einstaklinga og stofnana í Evrópu. Framleiðslan á bílunum er mjög dýr í fyrstunni en reiknað er með að kostnaðurinn á hvern bíl lækki frá og með árinu 2015 efir því sem reynsla byggist upp, og eftirspurn vex (væntanlega) og innviðir fyrir vetnisknúna umferð batna.

Hyundai ix35 vetnisrafbíll er svipaður í akstri og venjulegur samskonar bíll með brunahreyfli. Hann er 12,5 sek að ná 100 km hraða úr kyrrstöðu og kemst á 160 km hraða. Drægi hans á fullum vetnisgeymi er um 600 kílómetrar.