Fjóra daga tók að berjast í gegnum þykkt stálið

Vegurinn inn í Mjóafjörð hefur verið opnaður. Fjóra daga tók að berjast í gegnum þykkt stálið sem safnast hafði upp í vetur en sums staðar var það rúmir fimm metrar á hæð. Vegurinn yfir Mjóafjarðarheiði hefur verið meira og minna lokaður síðan í október.

Að sögn Ara B. Guðmundssonar, yfirverkstjóra á þjónustustöð Vegagerðarinnar á Reyðarfirði, var byrjað föstudag. Haldið var áfram á mánudaginn og um miðjan dag á miðvikudag, voru komin mjó göng með útskotum alla leið.

Vegurinn inn í Mjóafjörð lokaðist í október á síðasta ári. Hann var mokaður um miðjan þann mánuð fyrir Neyðarlínuna sem þurfti að flytja búnað til að leggja ljósleiðara í Mjóafirði. Mokað var á ný mánaðarmótin nóvember, desember til að koma tækjabúnaði til baka.

Í Mjófirði búa í kringum 14 manns yfir vetrartímann. Í Brekkuþorpi er allt til alls, kirkja, skóli, ferðamannaverslun, póstafgreiðsla, kaffistofa og þaðan er rekin útgerð og fiskeldi. Yfir vetrartímann er eina leiðin til og frá þorpinu sjóleiðis en Flóabáturinn Björgvin siglir milli Brekkuþorps og Neskaupsstaðar tvisvar í viku.