Fjórði hver Þjóðverji getur hugsað sér að kaupa kínverskan bíl

http://www.fib.is/myndir/Brill-arekst.2.jpg
Brilliance í klessu.

Fjórði hver Þjóðverji með ökuréttindi getur vel hugsað sér að kaupa og eiga kínverskan bíl. Skilyrði þess er þó að bíllinn sé öruggur og standi sig viðunandi í evrópsku árekstursprófi. Þetta er niðurstaða markaðskönnunar sem gerð hefur verið í  Þýskalandi.

ADAC í Þýskalandi hefur árekstursprófað kínversku bílana Landwind-jeppann og fólksbílinn Brilliance BS6 og báðir stóðu sig hörmulega illa. Bílarnir voru prófaðir með sama hætti og EuroNCAP árekstursprófar bíla og Brilliance bíllinn, sem er stór fólksbíll, fékk þá einkunn að vera lélegasti bíllinn í 20 ára árekstursprófunarsögu ADAC.

Brilliance og Landwind bílarnir, né heldur aðrar kínverkar bílategundir og –gerðir, hafa verið gerðarviðurkenndir í Evrópu. Þeir bílar sem hingað til hafa verið seldir og skráðir í álfunni hafa því fengið svokallaða eins bíls viðurkenningu (Single Vehicle Approval).  Því verður tæpast sagt að eiginleg innrás kínverskra bíla í Evrópu sé hafin. Hrakleg útreið fyrrnefndra Kínabíla í árekstursprófum hefur án efa hægt á markaðsstarfsemi kínverskra bílaframleiðenda. Enginn vafi er þó talinn á því að innrásin mun koma fyrr eða síðar þegar Kínverjar hafa endurbætt öryggi bíla sinna.

63 prósent þeirra sem spurðir voru í könnuninni sögðu að öryggi bíla væri það sem  mestu réði í bílakaupum sínum. Af öðrum ráðandi þáttum nefndu 48% aðspurða verðið og 46% nefndu umhverfismildi bílanna. Þættir eins og hönnun og útlit, vélarafl og ímynd virtist ekki skipta það fólk neinu máli sem á annað borð sagðist geta hugsað sér að eignast kínverskan bíl.