Fjórhjóladrifinn Tesla Model S

Rafbíllinn Tesla Model S er talsverður tískubíll vestur í Ameríku. Nú greinir bandarískt tæknitímarit frá því að þessi stóri rafdrifni lúxusbíll muni brátt fást fjórhjóladrifinn. Þetta kann að vera rétt því að hjá Tesla er þegar verið að þróa rafknúinn jeppa eða jeppling en vinnuheiti hans er Model X. Model X er væntanlegur á markað um mitt næsta ár.

Nú bendir margt til þess að Tesla sé að komast fyrir vind eftir tíu ára rekstur – taprekstur að mestu. Viðsnúningur hefur orðið eftir að fyrirtækið komst í eigu S. Afríkumannsins Elon Musk – mannsins sem bjó til greiðslumiðlunarkerfið PayPal. Rekstrarhagnaður á öðrum fjórðungi ársins varð 26 milljón dollarar og 5.150 bílar voru afhentir nýjum eigendum eða 650 fleiri en áætlað hafði verið.

Bandaríska tímaritið Verge segir að fjórhjóladrifinn Tesla S bíll gæti allt eins orðið fáanlegur um svipað leyti og jepplingurinn Model X. Tesla S er mjög aflmikill og viðbragðsfljótur. Ekki þykir ólíklegt að með fjórhjóladrifi verði bíllinn enn sneggri í upptakinu en sá tveggja hjóla drifni. Viðbragðið úr kyrrstöðu í hundraðið  verði ekki mikið meira en fjórar sekúndur þar sem fjögur hjól spóla mun síður á malbikinu en tvö.

Gísli Gíslason umboðsaðili Tesla Motors á Íslandi sagði í samtali við FÍB fréttir undir lok síðustu viku að verulegur áhugi væri hér á landi fyrir Tesla S og að nokkrir slíkir bílar væru væntanlegir hingað til lands síðar á árinu.

Í rafbílalandinu Noregi er mikill áhugi fyrir Tesla S og samkvæmt frétt Aftenposten hafa um 1.500 Norðmenn pantað slíka bíla og þegar er byrjað að afhenda fyrstu bílana. Í Noregi kostar Tesla S um átta milljónir ísl. kr. en hvorki aðflutningsgjöld né virðisaukaskattur eru innheimtir af bílnum þar sem hann er hreinn rafbíll. Svipað gildir um rafbíla hér á landi þannig að verðið hér gæti orðið í námunda við norska verðið.