Fleiri GM bílar seljast í Kína en heima í USA

General Motors seldi kínverskum bílakaupendum tæplega 3,2 milljónir nýrra bíla á nýliðnu ári. Í Bandaríkjunum, heimamarkaði GM seldust tæplega 2,8 milljónir nýrra GM bíla. Milli áranna 2012 og 2013 jókst salan um 11.4 prósent. Reiknað með áframhaldandi aukningu á þessu ári. En þótt GM bílar seljist vel í Kína þá eru bílar Volkswagen samsteypunnar vinsælli. Lokatala liggur þó ekki fyrir, en búist er við að hún verði drjúgum hærri en hjá GM. VW sé að taka toppsætið af GM á þessum risastóra og mikilvæga bílamarkaði.

Kínverski bílamarkaðurinn er gríðarlega stór og sístækkandi. Það eru ekki síst hinar dýrari gerðir GM bíla sem Kínverjar sækjast eftir, eins og Cadillac. Frá bílum Volkswagen samsteypunnar er það ekki síst Audi bílarnir sem Kínverjar sækjast eftir að eignast. Forstjóri GM í Kína, Matt Tsien, er ekki á því að gefa lengi eftir efsta sölusætið í Kína til langframa til VW. Hann segir við fréttamann Reuters að á þessu ári verði aukin áhersla lögð á framleiðslu og sölu á fjórhjóladrifnum bílum auk þess að fjölga nýjum gerðum og stækka úrvalið sem í boði er og víkka út sölu- og þjónustunetið.

Af einstökum GM tegundum jókst salan á Cadillac lang mest á liðnu ári, eða um 66,6 prósent miðað við árið á undan. Þá jókst sala á Buick um 15,7 prósent. Myndin með þessari frétt er af Buick LaCrosse, nýjum GM bíl á Kínamarkaði.