Fleiri velja sjálfskipta bíla

Lang flestir bílakaupendur í Bandaríkjunum velja sjálfskipta bíla og hefur svo verið lengi. Svo margir eru þeir í raun að handskiptir bílar eru orðnir í miklum minnihluta og fjöldi fólks hefur jafnvel sjaldan séð, hvað þá keyrt handskiptan bíl. Öðru máli hefur gegnt í Evrópu (kannski að Íslandi undanteknu). Þar hefur áhugi fyrir sjálfskiptingum verið lítill fram að þessu en svo virðist sem breyting sá að verða á því. Fjórir af hverjum tíu kaupendum nýrra bíla í helstu bílalöndum Evrópu velja nú að fá nýja bílinn sjálfskiptan þótt það kosti þá aðeins meir.

En það sérstaka í þessu er það að það eru kaupendur dýrari bílanna sem sækjast fremur eftir sjálfskiptingu en kaupendur ódýrra og miðlungsdýrra bíla. Þetta sést á því að hlutur sjálfskiptra nýrra bíla af tegundunum Porsche, Audi og BMW hefur stækkað meir en sjálfskiptir bílar af ódýrari tegundunum. Sjá nánar hér.

Svíar eru mikil bílaþjóð en það er ekki fyrr en allra síðustu árin að þeir eru teknir að halla sér meir og meir að sjálfskiptingunum. Árið 2003 valdi 21 prósent kaupenda nýrra bíla sjálfskiptingu í stað handskiptingar. Árið 2013 var heldur betur orðin bbreyting þar á því að 41 prósent valdi sjálfskiptinguna. Með þessum aukna áhuga Evrópumanna hefur framboð sjálfskiptinga stöðugt aukist í bílum og eru sjálfskiptingar nú orðið fáanlegar í nánast öllum tegundum, gerðum og stærðum bíla. Þótt sjálfskiptingar séu í grundvallaratriðum þrennskonar, fyrirfinnast margar útfærslur af hverri og enn fleiri markaðsheiti yfir þær – heiti eins og DSG, S-tronic, PDK, Steptronic og 7G-Tronic svo fá þeirra séu nefnd.

En kannski er það áhugaverðast við þessa þróun að hún virðist byrja fyrst meðal kaupenda dýrari merkjanna og dreifast þaðan niður eftir verðskalanum til hversdagsbílanna. Öflugust hefur sjálfskiptingavæðingin verið hjá BMW- 45%-72% á árabilinu 2009-2013 og hjá Audi – 29%-50% á sama tímabili.