Flestir gallar í nýjum bílum í þeim sænsku og frönsku

http://www.fib.is/myndir/Volvo_V70.jpg
Volvo V70. Með flesta galla á fyrsta notkunarárinu.

Motormännens Riksforbund, systurfélag FÍB í Svíþjóð hefur birt niðurstöður árlegrar könnunar á bilanatíðni nýrra bíla í Svíþjóð meðal tæplega 16 þúsund félagsmanna sinna og birt niðurstöðurnar. Bílarnir eru af árgerð 2007 og voru keyptir nýir í fyrra. Skemmst er frá að segja að sænsku bílarnir Volvo og Saab ásamt frönsku bílunum Renault, Peugeot og Citroen eru verst haldnir af göllum og bilunum. Fæstir gallar og bilanir komu fram í bílum framleiddum í Asíu.

Niðurstöðurnar sýna að það eru nýju sænsku og frönsku bílarnir af sem valda eigendum sínum mestu angri. Volvo V70 er sá bíll sem alvarlegir gallar og bilanir koma oftast fram í og einn vinsælasti bíllinn hjá Svíum; Saab 9-5 er einnig meðal þeirra verstu. Frönsku bílarnir eru einnig í þessum flokki með tveimur undantekningum þó. Þær eru Renault Clio og Citroen C3. Báðar þessar gerðir eru fyrir ofan meðaltalið, það er að segja betri en meðaltalsbíllinn.

Rolf Lööw tæknimaður hjá hinu sænska systurfélagi FÍB segir að könnunin sýni að í heild virðast hafa bílar batnað frá samskonar könnun á árgerðum 2006. Bilanir og gallar sem upp koma á fyrsta árinu séu færri í árgerð 2007. Svo virðist sem framleiðendur hafi almennt endurbætt atriði í raf- og tölvukerfum bílanna, en slíkum bílunum hafi verið að fjölga stöðugt um árabil.

Könnunin leiðir í ljós þá meðaltalstölu að í 17 af hverjum hundrað nýjum bílum af árgerð 2007 komu fram alvarlegar bilanir á fyrsta notkunarárinu. Hér er átt við bilanir sem eru það slæmar að bíllinn verður ógangfær og tafarlaust verður að flytja hann á verkstæði. Þessi meðaltalstala var enn verri hjá árgerð 2006 því að þá urðu 26 af hverjum hundrað bílum ógangfærir. Hvað varðar minniháttar galla sem geta beðið lagfæringar fram að næstu þjónustuskoðun þá sýna tölurnar nú einnig bata frá árinu á undan. Í árgerð 2007 komu slíkar bilanir upp í 42 af hverjum 100 bílum en í árgerð 2006 komu þær upp í 65 af hverjum 100 bílum. Að meðaltali þurftu nýju bílarnir af árgerð 2006 að dvelja 2,29 daga á verkstæði. 2007 árgerðin hefur einnig batnað hvað það varðar, því að verkstæðisdagarnir reyndust vera 2,07 dagar.

 Gallar í raf- og tölvukerfi Volvo V70 eru áberandi. Af öðrum göllum má nefna vandamál með læsingar og þjófaflautur, olíuleka frá stýrisvél, óþéttar hurðir og gluggar og óþéttar farangursdyr. Það sem helst hrjáir Saab 9-5 eru bilanir í hemlum og í eldsneytis- og kveikjukerfum. Af léttvægari vandamálum má nefna galla í þurrkubúnaði og rúðusprautum og í fram- og afturljósabúnaði.
 
Í 34. bíl af hverjum 100 Renault Mégane komu upp alvarlegar bilanir í rafkerfi. Auk þess eru bilanir algengar í fram- og afturljósum og hraðamæli. Þá eru hemlarnir veikur punktur. Gallar í framljósum eru algengir í Peugeot 307.
 
Meðal bíltegunda og –gerða sem gallar koma sjaldnast fram í eru Toyota og reyndar einnig Hyundai Getz og Santa Fe. Í þessum hópi er einnig BMW. Sjá nánar á töflunni hér að neðan.

http://www.fib.is/myndir/Sviabilanir.jpg