Fólks-rall-vagn

Volkswagen leggur mikið undir fyrir heimsmeistarakeppnina í rallakstri á næsta ári. Sett hafa verið upp keppnislið, rallbílar af ýmsum stærðarflokkum byggðir, bæði af Volkswagen, Skoda- Seat-  og Audi-tegundum og miklir rallkappar ráðnir sem byrjaðir eru þegar í stífum æfingum. En um leið kemur á almennan markað hver sérútgáfan af annarri af einskonar almennings-rallbílum sem byggðir eru í takmörkuðum upplögum.

Ekki er langt síðan VW sýndi blaðamönnum nýjan rallbíl sem byggður er á VW Polo. En jafnframt var þar sýndur nokkurskonar fólks-rallbíll sem sömuleiðis er VW Polo en mjög öflugur. Sá bíll nefnist Polo R WRC og verður einungis framleiddur í 2.500 eintökum og kostar stykkið tæplega 34 þúsund evrur við verksmiðjudyrnar, þ.e. án skatta og skráningargjalda.

VW Polo R WRC er mjög snöggur og öflugur. Vélin er tveggja lítra að rúmtaki, 220 hestöfl og með 350 Newtonmetra vinnslu. Næst öflugasti Pólóinn sem er Polo GTI, er „aðeins“ 180 hestafla/250 Nm. Þar fyrir neðan í afltölum og í eyðslutölum eru síðan nokkrir en sá eyðslugrennsti og minnst mengandi er Polo BlueMotion. Í viðbragðinu stenst sá bíll auðvitað ekki Polo R WRC snúning, en WRC bíllinn er einungis 6,4 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Það mun vera hálfri sekúndu sneggra en GTI Pólóinn.  En til að þola svona mikið vélarafl hefur þurft að styrkja skrokk bílsins umtalsvert, m.a. með því að hafa hann einungis þrennra dyra.

Byrjað verður að afgreiða þessa sérútgáfu VW Polo til væntanlegra kaupenda í september á næsta ári.