Ford Capri kemur aftur

http://www.fib.is/myndir/FordCapri.jpg
Breska bílablaðið Auto Express telur að nýi Ford Capri bíllinn muni líta einhvernveginn svona út.

Evrópskir bílafjölmiðlar telja sig hafa vissu fyrir því að gerðarheitið Capri sem var á litlum fjölskyldusportbíl frá Ford í Evrópu á síðustu áratugum 20. aldar muni birtast innan tíðar á samskonar bíl. Hugmyndarbíll með Capri-nafninu verði sýndur á einhverri af stóru bílasýningunum í haust, trúlega Parísarsýningunni.

Breska bílatímaritið Auto Express segir að nýi Capri Fordinn verði byggður á grunni Ford Focus og vélin verði fimm strokka túrbínubensínvélin sem er í mörgum Volvobílum og Capri verði fáanlegur bæði með tví- eða fjórhjóladrifi. Bíllinn sé væntanlegur í framleiðslu innan tveggja ára og muni þá keppa á markaði við t.d. Audi TT, VW Scirocco, Peugeot 308 RC-Z og nýja Toyotu Celica/Subaru.