Ford Escort kemur aftur

Bílgerðin Escort er líklegast að koma til baka en óvíst að bíll með þessu fyrrum vinsæla nafni verði á markaði annarsstaðar en í Kína. Á bílasýningunni í Shanghai í Kína sem nú er hafin, er til sýnis hjá Ford stallbakur undir Escort nafninu. Bíllinn er frumgerð nýs bíls sem tilbúinn er til fjöldaframleiðslu. Hann er hreint ekki ólíkur síðustu árgerðum hins evrópska Ford Escort sem Ford Focus svo leysti af hólmi árið 2000.

Ford Escort var mjög vinsæll bíll í Evrópu frá árinu 1968 þegar bíllinn kom fyrst fram. Hann gekk á lífsferlinum í gegn um sex kynslóðabreytingar eða eins og meiriháttar endurnýjun bílgerða er gjarnan nefnd. Margir sáu eftir Escort nafninu þegar það var lagt niður, enda var enginn sérstakur bilbugur á Escortinum þá, salan var enn í fullum gangi og sumir töldu að nýi bíllinn, Ford Focus myndi seint ná sömu hæðum og Escortinn en það fór hreint ekki svo illa því að Focus er nú mest seldi bíll nútímans.

Umskiptin voru ekki ósvipuð hjá Toyota í Evrópu þegar Corolla nafnið var lagt niður og Auris tekið upp í þess stað. Corolla hélt að vísu áfram að vera til á öðrum markaðssvæðum en þó ekki að öllu leytisem  sami bíll heldur nokkru stærri. Ekki er hins vegar enn ljóst hvort  umskiptin takist jafn vel og hjá Ford.

Hinn nýi Ford Escort getur orðið mikilvægur fyrir Ford á kínverska bílamarkaðinum. Kínverjum falla stallbakar vel í geð og hjá Ford vænta menn þess að slíkur bíll geti stækkað markaðshlutdeild Fords í Kína. Af vestrænu framleiðendunum eru Volkswagen og General Motors stærstir þar. Hlutdeild VW er 19,5 og hlutdeild GM er 15,6 prósent. Hludeild Fords í Kína er hins vegar 2,5 prósent. Markaðsrannsóknafyrirtækið LMC Automotive spáir því að Ford muni ná að stækka hlutdeild sína í 3,4 prósent árið 2017. Metnaður Fords stendur hins vegar til þess að stækka hlutdeildina í 6 prósent strax 2015.

Og kannski tekst það hjá Ford. Ford er nefnilega sem óðast að koma fram með nýjar gerðir bíla í Kína, eða alls 15 til og með árinu 2015. Ein þessara nýju gerða er nýr Ford Mondeo sem kemur á Kínamarkað á næstu vikum. Í Evrópu eru hins vegar enn tvö ár í þennan bíl. Hann verður framleiddur í nýrri verksmiðju á Spáni sem ekki verður tilbúin fyrr en undir lok næsta árs (2014).