Ford F-150 úr áli

Bandaríkjamenn hafa löngum verið miklir aðdáendur pallbíla. Pallbíllinn Ford F-150 hefur verið eftirsóttasti og mest seldi bíllinn í Bandaríkjunum undanfarin 37 ár hvorki meira né minna og er það enn. Ford framleiðir fjöldamargar gerðir bíla en F-150 er svo vinsæll á heimamarkaðinum að þriðji hver seldur bíll frá Ford er F-150 pallbíll og um 90 prósent af hagnaði Ford kemur úr pallbílasölu fyrirtækisins.

Ford F-150 er enn byggður á sama hátt og alltaf áður – á stigagrind. Á grindina er vél, gírkassi, hjólabúnaður og drif fest og ofan á allt saman er svo yfirbyggingin skrúfuð. En með 2015 árgerðinni af Ford F-150 sem nú er komin í flestar Ford bílasölur í Bandaríkjunum, hefur verið gerð talsvert róttæk breyting á þessum forngrip. Yfirbyggingin er ekki lengur byggð úr stáli heldur áli að stærstum hluta.  

Við þessi umskipti verður bíllinn umtalsvert léttari og þar með sparneytnari, en líklega dýrari þar sem ál er dýrara hráefni en stál. Á þessu myndbandi segir þekktur bandarískur bílablaðamaður, Michelle Krebs frá því sem hugsanlega vinnst og tapast við þessa breytingu.