Ford fyrirtækið dæmt til að greiða dánarbætur vegna bílveltu

Dómstóll í Jacksonville í Florida hefur dæmt Ford bílaframleiðslufyrirtækið til að greiða fjölskyldu 26 ára gamallar konu, Claire Duncan, 10,2 milljónir dollara í dánarbætur vegna þess að toppurinn á Ford Explorer, árgerð 2000, jeppa konunnar lagðist saman í veltu og höfuðmeiðsli sem konan hlaut drógu hana til dauða.
Forsendur dómsins eru í stuttu máli þær að hjá Ford hafi menn vitað af því að toppurinn var of veikur til að standast veltu. Í réttarhaldinu voru lögð fram innanhússgögn frá Ford sem sýndu að tæknimenn hjá Ford höfðu verið meðvitaðir um að toppurinn væri veikur og hefði veikst umtalsvert frá upphaflegri gerð Explorer. Þetta hefði gerst við endurhönnun bílsins á tíunda áratuginum.
Ennfremur kom fram að tæknimenn hjá Volvo, dótturfyrirtæki Ford, höfðu bent á að toppurinn þyldi illa veltu. Þetta höfðu þeir gert þegar þeir voru að hanna Volvo XC90 sem að hluta var byggður á sama grunni og Explorer. Þau gögn sýndu ennfremur að hjá Volvo hefðu menn sýnt það sjálfstæði og ábyrgðartilfinningu að fara sínar eigin leiðir og styrkt toppinn á XC90 verulega. Með því hefðu þeir farið gegn vilja stjórnenda og markaðsmanna hjá Ford sem ekki hefði þótt það ómaksins vert að leggja fé og fyrirhöfn í slíkt.
Nánar má lesa um þetta mál á vef Detroit News hérna.
The image “http://www.fib.is/myndir/Exploreroltinn.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Björgunarmaður á slysstaðnum við bíl Claire Duncan. Toppurinn á Explorer jeppa hennar lagðist saman í veltu og konan lést af höfuðmeiðslum sem hún hlaut.