Ford í Danmörku kært fyrir duldar auglýsingar

Umboðsmaður neytenda í Danmörku hefur kært Ford Motor Company í Danmörku til lögreglu fyrir duldar auglýsingar á samfélagsmiðlum. Meint brot fólust í því að setja inn myndir af dönsku frægðarfólki og Ford bifreiðum þessa fólks inn á samfélagsmiðla án þess að tilgreina að um auglýsingar væri að ræða.

   Kært er vegna 65 myndbirtinga Ford á Instagram á tímabilinu apríl 2013-október 2016. Á þeim sjást 11 frægðarmanneskjur sem taldar eru upp á heimasíðu Ford í Danmörku sem Ford-ambassadorar. Við fyrstu sýn mætti ætla að frægðarfólkið hefði sjálft sett þessar myndir inn en við nánari skoðun mátti sjá að það er Ford Motor Company sem hefur látið gera það. Ekkert kemur fram um að myndirnar séu í raun bílaauglýsingar sem koma eiga fyrir augu fylgjenda frægðarmennanna á miðlinum en þeir eru frá 1.152-70.600 talsins.  

   Umboðsmaður neytenda segir að með þessu hafi Ford brotið gegn fjórðu grein markaðslaga um duldar auglýsingar. Ford hafi látið undir höfuð leggjast að merkja þessi innlegg sem auglýsingar. Því sjái lesendur ekki ekki annað við fyrstu sýn en að þarna séu einungis mynd af manneskju við bíl.  Ford mótmælir því og segir að svonefnt Hashtag sé sýnilegt og eigi að vera nóg til að segja lesendum hver sé sendandinn. ,,Það er ekki nóg að Hashtaggið eitt segi til um nafn sendanda eða vöru,“ segir Christina Toftegaard Nielsen umboðsmaður neytenda við danska tímaritið Motor.