Ford innkallar gamla Windstar bíla

Reuters fréttastofan greinir frá því nú í morgun að Ford Motor Co sé nú að innkalla 525.000 Windstar fjölnotabíla af eldri árgerðum. Ástæðan er sögð sú að á köldum landsvæðum geti hlutir í undirvögnum bílanna ryðgað í sundur og valdið því að stýrið svarar ekki sem skyldi.

Bílar af þessari gerð fyrirfinnast vart hér á landi og langflestir hinna innkölluðu bíla eru skráðir í Bandaríkjunum og Kanada og sárafáir í öðrum löndum. Reuters segir að í frétt frá Ford komi fram að skráð séu sjö óhöpp sem rakin hafa verið til ágallans og í þeim hafi fimm manns orðið fyrir minniháttar meiðslum.

Þær árgerðir sem um ræðir eru frá1999 til 2003. Bandaríska umferðaröryggisstofnunin NHTSA segist hafa fengið 87 kvartanir um ryð í burðarvirki í framenda þessara bíla og að 74 skýrslur fyirrfinnist um óhöpp sem rekja megi til ryðskemmda.