Ford jepplingur frá Rúmeníu

Ford Motor Co ætlar að endurbæta bílaverksmiðju sína í Suður-Rúmeníu fyrir 200 milljón evrur og framleiða þar síðan nýjan jeppling; Ford EcoSport. Ford hefur frá 2008 framleitt Ford B-Max í litlum upplögum í verksmiðju þessari en framleiðslan stöðvast ítrekað sökum ástands hennar. Verksmiðjan var til ársins 2008 í eigu rúmensks ríkis-bílaframleiðanda sem hét Automobile Craiova.

EcoSport jepplingurinn er í minni stærðarflokki slíkra bíla. Framleiðsla á honum hófst fyrir ekki löngu í Viet Nam en í Rúmeníu er áætlað að hún geti hafist haustið 2017 og eru bílarnir ætlaðir fyrir Evrópumarkað að sögn Jim Farley Evrópuforstjóra Fords á blaðamannafundi í Rúmeníuverksmiðjunni í gær.

Farley sagði að Ford ætlaði sér stóran hlut á jeppa og jepplingamarkaði Evrópu og stefndi á að selja þar á þessu ári yfir 200 þúsund slíka bíla. Gangi það eftir er um að ræða 30% aukningu frá síðasta ári.