Ford Mondeo er forstjórabíll ársins 2015 í Danmörku

Sérstök dómnefnd velur á hverju ári forstjóra- og millistjórabíl ársins í Danmörku. Bílarnir eru metnir út frá þægindum, rekstraröryggi, eyðslu, verði og viðhalds- og reksturskostnaði og sömuleiðis skattalegu hagræði. Í dómnefndinni eru tveir blaðamenn frá Jyllands Posten, sjúkraþjálfari og átta reyndir ökumenn frá danska verslunarráðinu sem aka mikið í störfum sínum. Auk Mondeo voru í úrslitum að þessu sinni VW Passat, Volvo V60 og Audi A4.

Í umsögn dómnefndar segir m.a. að Ford Mondeo sé stór og rúmgóður, ágætur í akstri og þægilegur, en auk þess mjög ásjálegur. Þá sé verðið á honum sem og reksturs- og tryggingakostnaður þannig að það stuðli að því að gera bílinn sérlega hagstæðan gagnvart skattlagningu hans sem fyrirtækisbíls.