Ford vill selja Mazda-hlutabréf

http://www.fib.is/myndir/Mazda3.jpg
Nýr Mazda 3. Væntanlegur við upphaf nýs árs.

Bandarísku bílastórfyrirtækin þrjú, Ford, GM og Chrysler leita allra leiða til að vinna sig út úr risavöxnum erfiðleikum sínum. Nú hafa fengist staðfestar fréttir um samvinnu- eða jafnvel samrunaviðræður milli Chrysler og GM og japanska fréttastofan NHK greinir frá því að Ford vilji nú selja stærstan hluta hlutafjáreignar sinnar í Mazda.

Ford á sem stendur 33,4 prósent í Mazda en vill samkvæmt frétt NHK minnka hlutinn niður í 13 prósent eða þar um bil og fá fyrir um 800 milljónir dollara fyrir hlutabréfin.

Ekki er langt síðan Ford seldi hluti sína í hinum bresku Aston Martin, Jaguar og Land Rover. Þá hefur lengi verið orðrómur um að Volvo sé einnig til sölu en talsmenn Ford Motor Company hafa jafnharðan neitað honum, nú síðast í samtölum við sænska bílablaðamenn á bílasýningunni í París.

Mazda er einn þeirra bílaframleiðenda í heiminum sem hvað best gengur um þessar mundir. Markaðsvirði fyrirtækisins er talið vera um fjórir milljarðar dollara. Sé það raunin gæti Ford fengið um 800 milljónir dollara fyrir þann hlut sinn í Mazda sem til sölu er.

Líklegast þykir að Mazda fyrirtækið sjálft kaupi hlutabréfin af Ford, enda er það fjárhagslega sterkt um þessar mundir. Verr gekk hjá Mazda fyrir tæpum áratug, en fyrirtækið vann sig út úr þeim vanda. Fjölmiðlar hafa eftir nafnlausum heimildamönnum innan fyrirtækisins að það hafi tekist vegna þess að Mazda fékk að hanna og byggja bíla á eigin forsendum og án afskipta frá Ford.