Forðaði breskum bílaiðnaði frá bana

Á áttunda áratuginum var breskur bílaiðnaður kominn gersamlega að fótum fram. Greinin logaði stafna á milli í vinnudeilum og verkföllum og sjálf framleiðsluvaran – bílarnir - voru hreint afleitir, illa byggðir, bilanagjarnir og þóttu auk þess afburða ljótir. Margaret Thatcher forsætisráðherra, sjálf guðmóðir frjálshyggjunnar sem hélt í heiðri þá meginreglu að halda ekki lífi með ríkisfé í fyrirtækjum sem ekki skiluðu arði, gekk gegn þessari meginreglu sinni þegar breski bílaiðnaðurinn, sem þá hafði að stórum hluta sameinast undir merkjum British Leyland, var orðinn nánast gjaldþrota og stöðvun blasti við.

http://www.fib.is/myndir/Morris.marina.jpg
Morris Marina var einn af þeim bílum
sem British Leyland framleiddi á Thatc-
her tímabilinu.
http://www.fib.is/myndir/Austin_allegro_1.jpg
...og Austin Allegro var annar. Hvorugur
þessarabíla voru miklir akstursbílar og
báðir bilanagjarnir og erfiðir í rekstri.

Thatcher tók þann kost að setja 2,9 milljarða punda af ríkisfé í British Leyland til að grynna á skuldunum. Hefði hún ekki gert þetta, hefði breskur bilaiðnaður hreinlega lagst af, segir Garel Rhys fyrrverandi stjórnandi rannsóknastofnun breska bílaiðnaðarins við Cardiff háskólann. Milljarðarnir 2,9 voru greiddir út í slumpum á árunum 1979-1988

British Leyland var stofnað árið 1968 í þeim tilgangi að hagræða og sameina flest þekktustu vörumerki breska bílaiðnaðarins; Austin, Morris, Leyland, MG, Rover o.fl. Árið 1977 störfuðu 167 þúsund manns hjá fyrirtækinu og framleiddu 2/5 hluta þeirra bíla sem nýskráðir voru í Bretlandi.

En eftir það lá leiðin hratt niður á við. Eilífir árekstrar voru milli verkalýðsfélaga og atvinnurekenda, stjórnendur voru veikburða og stjórnuðu illa, gæðastjórnun og –eftirlit var í molum og frágangur á bílunum var slæmur og þeir þar af leiðandi bilanagjarnir og erfiðir í rekstri og entust stutt. Allt þetta leiddi til að salan á  bílunum dróst saman og árið 1980 var markaðshlutdeildin komin niður í 15 prósent. Á endanum fékkst Margaret Thatcher, þvert á eigin sannfæringu, að ríkisstyrkja hið hrjáða fyrirtæki. En lengi á eftir var hún í vafa um hvort hún hefði gert rétt. Það má m.a. lesa í sjálfsævisögu hennar sem kom út árið 1993.

Garel Rhys er þó sannfærður um að Thatcher hafi bjargað breska bílaiðnaðinum með þessum hjálparaðgerðum. Án þeirra hefði hann lagst af og í dag væru hvorki Land Rover, Jaguar eða Mini til ef Thatcher hefði fylgt sannfæringu sinni.

Ekki eru allir á sama máli og hann og segja að aðgerðirnar hefðu einungis frestað hinu óhjákvæmilega og benda á að British Leyland sé ekki lengur til og undirmerkin sem eftir eru, séu öll í eigu erlendra aðila; Mini sé í eigu BMW og Jaguar og Land Rover í eigu Tata í Indlandi og MG í eigu Kínverja.