Fordbílar betri en vænst var

http://www.fib.is/myndir/FordFusion-2008.jpg

Ford Fusion 2008.

Nýleg árleg gæðakönnun Consumer Reports á nýjum bílum sem seldir eru í Bandaríkjunum leiðir í ljós að bílar frá Ford hafa batnað. Tímaritið segir að Ford bílar hafi gengið í gegn um „persónuleikabreytingar“ og standist nú samanburð við góða japanska bíla eins og Toyota og Honda. 

Hið bandaríska neytendatímarit, Consumer Reports sendir árlega út spurningalista til eigenda nýrra og nýlegra bíla og byggja niðurstöðurnar á svörum minns 1,4 milljóna manna hverju sinni. Miðað við niðurstöður fyrri ára er ljóst að Ford bílar hafa batnað verulega í kjölfar mikils gæðaátaks hjá Ford sem nær til flestallra gerða Ford bíla sem seldir eru í Bandaríkjunum.

Yfirleitt hafa japanskir bílar komið best út í þessum könnunum tímaritsins undanfarin mörg ár. Í könnun síðasta árs lágu þrjár gerðir bíla frá Toyota (Camry V6, Tundra V8 4WD og Lexus GS AWD) undir nokkurri gagnrýni eigenda. Svo virðist sem Toyota hafi brugðist við því og lagað það sem eigendur töldu þá að væri ekki sem skyldi. Í það minnsta ber ekki á sömu gagnrýni nú vegna þessara bílagerða.

En sömu sögu er ekki að segja að gengi Chrysler í könnuninni nú. Samkvæmt niðurstöðunum virðast bílar af 2008 árgerð vera lélegri en samskonar bílar af árgerð síðasta árs. Versti Chryslerbíllinn virðist vera Sebring Convertible sem mælist 283 prósentum verri en meðaltalsbílinn.