Forðist vanrækslugjald
Alltaf kemur það upp af og til að fólki tekst ekki að mæta með bíla sína í skoðun innan tiltekins tíma og þurfa því að greiða vanrækslugjald. Mörgum finnst það súrt í broti að þurfa að greiða vanrækslugjald ef t.d. bíll er bilaður eða í viðgerð á verkstæði og þar af leiðandi ekki í umferð. Þótt viðkomandi bílaverkstæði votti það skriflega að bíll sé ekki ökuhæfur inni á verkstæði þá dugar það ekki innheimtumanni gjaldsins til að fella það niður. Þetta eru menn kannski ekki sáttir við, en lög og reglur eru lög og reglur.
Innheimta vanrækslugjaldsins er á höndum sýslumannsembættisins í Bolungarvík. Embætið hefur nú sent frá sér yfirlýsingu sem skýrir þetta. Í því eru einnig leiðbeiningar um það hvernig fólk skuli bera sig að til að sleppa undan álagningu gjaldsins ef fyrirsjáanlegt er að ekki verði komist með bíl í skoðun innan tiltekins tímafrests. Það er í stuttu máli þannig að til að afstýra álagningu gjaldsins er hægt að leggja inn skráningarmerki bílsins/ökutækisins inn til geymslu hjáskoðunarstöð eða Samgöngustofu eða þá að skrá ökutækið tímabundið úr umferð hjá Samgöngustofu. Það má gera beint á www.samgongustofa.is
Sjá nánar í frétt frá sýslumanninum í Bolungarvík.