Formúla 1 og FIA nötra vegna kynlífsmyndbands

http://www.fib.is/myndir/Max-mosley.jpg
Max Mosley.

Alþjóða bíleigenda- og bílaíþróttasambandið FIA og Formúla 1 nötra nú stafna í milli vegna kynlífsmyndbands sem sagt er sýna Max Mosley forseta FIA í kynlífstengdum athöfnum með fimm vændiskonum í London sem íklæddar eru bæði fangabúningum og nastistalegum einkennisbúningum.

Æsifréttablaðið News of the World birti um helgina frétt um meinta heimsókn forseta FIA til fimm vændiskvenna og á myndbandi sem sagt er tekið í heimsókninni eru myndskeið þar sem maður sem líkist nokkuð Mosley er að að dunda sér m.a. við að flengja konurnar og þær hann. Í þessum athöfnum heyrist maðurinn gefa skipanir á þýsku. Myndirnar eru óskýrar og ómögulegt að kveða upp úr með það hvort maðurinn sé raunverulega Max Mosley. Í „frétt“ News of the World er auk þess ítarlega greint frá því að Oswald Mosley, faðir Max, hefði verið foringi breskra nasista á millistríðsárunum og í vinfengi við Adolf Hitler. Oswald var handtekinn árið 1940 og fangelsaður vegna stjórnmálaskoðana sinna en var sleppt af heilsufarsástæðum árið 1943. Hann flutti til Írlands frá Bretlandið árið 1951 og síðar til Parísar þar sem hann lést í desember 1980.

Allur er þessi fréttaflutningur nú með nokkrum ólíkindum og gæti hæglega verið lævísleg árás á FIA og Max Mosley gerð í því skyni að flæma hann úr forystusæti FIA sem hann  hefur skipað tæplega þrjú kjörtímabil. Max Mosley hefur verið mjög ötull talsmaður öryggis bæði í bílakeppnisíþróttum og í almennri umferð. Strax eftir að hann varð fyrst forseti FIA tók hann öryggismál Formúlu 1 gersamlega í gegn og hefur síðan ekki orðið banaslys í keppni í greininni. Að hans frumkvæði er nú verið að yfirfæri þessa reynslu frá Formúlunni yfir í almenna umferð með því að gera bílana og vegina öruggari og umhverfismildari (Euro NCAP, Euro RAP, Make Roads Safe, Make Cars Green, o.mfl.).

Max Mosley hefur ekki ennþá tilkynnt hvort hann ætli að gefa kost á sér til forsetakjörs FIA í fjórða sinn. Ljóst má vera að þessi uppákoma spillir verulega fyrir hugsanlegu framboði hans. Max Mosley hefur verið nokkuð umdeildur og ýmsir sterkir aðilar innan bílasportsins og bifreiðaeigandafélaga eru honum ekki hliðhollir. Þegar njósnamál McLaren gagnvart Ferrari kom upp á síðasta ári var Mosley gagnrýndur bæði fyrir að hafa tekið of vægt á málinu og of harkalega. Þá er ekki langt síðan hann tók mjög ákveðið til máls gegn ýmsum sem hafa verið með rasískt tal og athugasemdir um þeldökka formúluökumanninn Hamilton.

Á myndabandinu umrædda er sem fyrr segir ómögulegt að kveða óyggjandi upp úr með það hvort maðurinn á því sé í raun Max Mosley. Ekki verður betur séð en maðurinn viti vel af því að verið sé að mynda hann og satt að segja hlýtur það að kalla fram stórt spurningamerki. Það er harla ólíklegt að maður í hans stöðu væri sáttur við það. Spurningin hlýtur að vera sú hver eða hverjir standa á bakvið myndbandið og „fréttina.“ Eru það hneykslishungruð síðdegisblöðin? Eru það einhverjir sem vilja skaða Max Mosley og losna við hann úr forsetastóli FIA? Er myndbandið hrein og klár fölsun og/eða fjárkúgun? Er líklegt að opinber persóna eins og Max Mosley láti mynda sig við svona aðstæður? Varla.

Þegar þetta er ritað hafði engin yfirlýsing borist frá FIA, né frá Max Mosley sjálfum, önnur en sú að lögmenn séu að kanna málið.