Formúla eitt seld bandarískri fjölmiðlunarsamsteypu

Bernie Eccelstone Formúlukóngur búinn að selja.
Bernie Eccelstone Formúlukóngur búinn að selja.

Bandaríska kvikmynda- og fjölmiðlasamsteypan Liberty Media hefur gert kaupsamning um Formúluna við breska öldunginn Bernie Eccelstone á 4,4 milljarða dollara. Eccelstone verður áfram framkvæmdastjóri Fomúlunnar en Chase Carey framkvæmdastjóri 21. Century Fox kvikmyndafélagsins verður stjórnarformaður.

Liberty Media og systurfélög, sem eru í eigu bandaríska fjölmiðlunarkóngsins John Malone, rekur mjög fjölþætta starfsemi í íþróttum og skemmtiiðnaði. Meðal eigna þess má nefna hafnarboltaliðið Atlanta Braves og Virgin Media. Einnig á Malone stóra hluti í þekktum evrópskum fyrirbærum eins og sjónvarpsstöðvunum ITV, Eurosport og Rafmagnsformúlunni (Formula E).

Greg Maffei fjölmiðlafulltrúi Liberty Media segir við breska Netmiðilinn Mirror að það sé mikið tilhlökkunarefni að taka við Formúlunni og efla hana enn frekar. Formúlan sé vel þekkt og vinsælt sport hvarvetna í veröldinni.

Samkvæmt kaupsamningnum mun Liberty Media fyrst eignast 18.7% hlut í Formúlunni. En þegar samkeppnisyfirvöld og FIA – alþjóðasamband vélknúinna íþróttafélaga hafa samþykkt kaupin mun Liberty eignast Formúluna alla.

En þótt Formúlan sé heimsþekkt þá hefur hún aldrei náð fótfestu í Bandaríkjunum. Því er fastlega reiknað með því að hinir nýju bandarísku eigendur hyggist bæta úr því. Einnig megi vænta þess að Formúlan verði framvegis sýnilegri í tölvum og tölvuleikjum en hingað til.