Fórnarlamba umferðarslysa minnst
Árlegur alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa var haldinn í gær og í ár var sérstök áhersla lögð á fyrstu viðbrögð á slysstað og neyðarhjálp.
Tilgangur með deginum er að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni og ekki síst að þakka þeim viðbragðsaðilum sem veita hjálp og björgun.
Minningarathafnir voru haldnar hringinn í kringum landið af þessu tilefni og þar á meðal við þyrlupall bráðamóttöku Landsspítalans. Þar voru flutt ávörp og fórnarlamba umferðaslysa var minnst með einnar mínútu þögn.
Einkennislag dagsins var lag KK, Kristjáns Kristjánssonar, When I think of Angles, í flutningi hans og Ellenar systur hans.
KK samdi lagið til minningar um systur þeirra sem lést í umferðarslysi í Bandaríkjunum árið 1992. Lagið var flutt samtímis á öllum útvarpsstöðvum.
Minningardagurinn er alþjóðlegur undir merkjum Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu. Um það bil 3.600 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Það eru u.þ.b. 1,3 milljónir á einu ári.
Að minningardeginum stóðu Samgöngustofa, innviðaráðuneytið, Sjálfsbjörg, Landsbjörg, Neyðarlínan, Lögreglan og Vegagerðin.