Fornbílaklúbbur Íslands fagnar afmæli og nýju félagsheimili

Nýtt félagsheimili FBI Ögurhvarfi 2. Mynd: Fornbill.is
Nýtt félagsheimili FBI Ögurhvarfi 2. Mynd: Fornbill.is

Fornbílaklúbbur Íslands fagnaði í gærkvöldi 45 ára afmæli sínu og við það tækifæri var nýtt félagsheimili klúbbsins að Ögurhvarfi 2 í Kópavogi formlega opnað. Klúbburinn var stofnaður 19. maí 1977. Félagsmenn fjölmenntu á afmælishófið og fögnuðu þessum tímamótum í sögu klúbbsins.

Markmið klúbbsins er að efla samheldni með áhugamönnum og eigendum gamalla bíla og gæta hagsmuna þeirra í hvívetna. Jafnframt vinnur Fornbílaklúbburinn að því að auka áhuga almennings fyrir gömlum bílum og glæða skilning á varðveislu þeirra og minjagildi.

Allt frá stofnum Fornbílaklúbbsins árið 1977 hefur hann náð umtalsverðum árangri í hagsmunagæslu fornbílaeigenda. Nefna má sem dæmi niðurfellingu bifreiðagjalda og stórlækkun aðflutnings- og tryggingariðgjalda, auk þess sem fornbílar mega nú bera eldri gerðir skráningarmerkja. Þessi árangur er afrakstur ötuls starfs við að vekja skilning stjórnvalda á varðveislugildi gamalla bíla.

Fornbílaklúbburinn stuðlar að persónulegum kynnum eigenda fornbíla á Íslandi og hvetur félagsmenn til samvinnu um áhugamál sín, þannig að þeir geti miðlað hverjir öðrum af reynslu sinni og kunnáttu í meðferð og varðveislu gamalla bíla.

Þess má geta að aðalfundur Fornbílaklúbbs Íslands verður haldinn miðvikudagskvöldið 25. maí í félagsheimili klúbbsins að Ögurhvarfi 2 kl 20:00. Húsið opnar kl. 19.00 og hefst fundurinn og eru félagar hvattir til að koma akandi á fornbílum.