Forseti FIA á fundi með páfanum í Róm

Jean Todt og Frans páfi takast í hendur. Milli þeirra er Christian Friis Bach framkvæmdastjóri efnah…
Jean Todt og Frans páfi takast í hendur. Milli þeirra er Christian Friis Bach framkvæmdastjóri efnahagsmálaráðs SÞ í Evrópu (UNECE). Lengst til hægri á myndinni er Angelo Sticchi Damiani formaður ACI, systurfélags FÍB á Ítalíu.

Á fundinum lýsti Frans páfi stuðningi við heimsátak  SÞ og FIA - alþjóðasambands bíleigendafélaga um að fækka látnum og slösuðum í  umferðarslysum í heiminum um helming. Þá undirritaði hann jafnframt stuðningsyfirlýsingu við átakið Verndum líf barnanna (Save Kids Lives). Á fundinum í Vatíkaninu í Róm voru auk Jean Todt forseta FIA og erindreka umferðaröryggismála hjá SÞ, leikkonan Michelle Yeoh sendiherra umferðaröryggismála hjá SÞ, Christian Friis Bach framkvæmdastjóri efnahagsmálaráðs SÞ í Evrópu (UNECE) og Angelo Sticchi Damiani formaður ACI, systurfélags FÍB á Ítalíu.  

Jean Todt greindi frá þeim vanda sem við er að etja og undirstrikaði það hve mikilvægt er að ríkisstjórnir, yfirvöld og samfélög setji það í forgang að efla umferðaröryggi m.a. með því að stuðla að setningu laga og reglna um umferð, samgöngutæki og umferðarmannvirki og framfylgja þeim. Hann kynnti síðan fyrir páfa stuttmyndina Verndum líf barnanna (Save Kids Lives) eftir kvikmyndaleikstjórann heimskunna, Luc Besson og samnefnt alheims-slysavarnaátak. Í stuttmyndinni kemur fram að sérhvern dag láta 500 börn lífið í umferðinni í heiminum.  

Alþjóða heilbrigðisstofnunin WHO segir að árlega látist 1,25 milljón manns umferðarslysum og allt að 50 milljón manns slasist misalvarlega. Hlutfallslega flest slysanna verða í lágtekju og meðaltekjuríkjum heimsins. Í þessum ríkjum eru umferðarslys megin dánarorsök ungs fólks á aldrinum 15-29 ára og stefna í það að verða líka megin dánarorsök 5-14 ára barna, ef fram heldur sem horfir. Hátt í helmingur látinna í umferðinni eru fótgangandi, hjólreiðafólk og vélhjólafólk. Alþjóðasamfélagið hefur á síðustu árum brugðist við þessum gríðarlega heilbrigðisvanda. Samþykkt allsherjarþings SÞ um að fækka þessum slysum um helming milli áranna 2010-til 2020 er einn vitnisburður þess.

Í lok fundarins í Vatíkaninu ávarpaði Jean Todt Frans páfa og sagði: „Við þökkum yðar heilagleika hjartanlega fyrir þessa stund og fyrir að gefa yður tíma til að ræða umferðaröryggismál við okkur. Umferðarslys eru eitt alvarlegasta vandamálið sem nútímafólk þarf að takast á við. Þau leggjast þyngst á fátækustu ríkin og þá sem verst eru staddir í okkar eigin samfélögum.

Stuðningur hans heilagleika, Frans páfa, við átakið Verndum líf barnanna mun efla vitneskju fjöldans um þau 500 börn sem daglega missa lífið á vegum og götum veraldarinnar. Hann mun auðvelda okkur að breiða út þann boðskap að þessari skelfingu er mögulegt að forða.