Forseti FIA krefst aðgerða til að flýta innleiðingu ESC-stöðugleikabúnaðar í alla bíla

http://www.fib.is/myndir/ESC.jpg

Samkvæmt frétt frá FIA-alþjóðasamtökum bifreiðaeigenda- og akstursíþróttafélaga eru Evrópumenn að dragast afturúr Bandaríkjunum í því að innleiða ESC stöðugleikabúnað í bíla. Hlutfallslega fleiri nýir bílar af árgerð 2007 eru með þennan búnað í Bandaríkjunum en í Evrópu. Og ólíkt Evrópusambandinu hafa Bandaríkin sett lög um að innan fárra ára verði ESC skyldubúnaður í öllum bílum. Í frétt frá FIA er bent á að ESC stöðugleikabúnaður sé evrópsk uppfinning og því ætti evrópskum stjórnvöldum enn frekar að renna blóðið til skyldunnar að innleiða þennan lífsnauðsynlega búnað.

FIA krefst tafarlausra aðgerða af hálfu opinberra aðila að flýta því að þessi öflugasti lífsbjargarbúnaður sem fáanlegur er í bíla verði nýttur til fulls til að forða dauðaslysum á evrópskum vegum. Í bréfi sem FIA hefur sent Wolfgang Tiefensee formanni umferðarráðs Evrópusambandsins og Gunther Verheugen framkvæmdastjóra atvinnu- og iðnaðarmála hjá ES eru þeir hvattir til að stuðla að því að farið verði að fordæmi bandarísku umferðaröryggisstofnunarinnar NHTSA varðandi ESC búnað í bíla.

Undir bréfið rita Max Mosley forseti FIA, Franco Lucchesi varaforseti og Werner Kraus formaður svæðisstjórnar FIA í Evrópu og formaður austurríska bifreiðaeigendafélagsins ÖAMT, systurfélags FÍB. Í því benda þeir á að á sama tíma og Evrópusambandið hafi sett sér það markmið að fækka dauðaslysum í umferð um helming fyrir árið 2010 verði einungis um 61% bíla í Evrópu búnir ESC. Á ameríska efnahagssvæðinu NAFTA verði hins vegar ESC kerfi komið í 82% bíla árið 2010.

FIA leiðtogarnir fagna ákvörðun NHTSA um að lögskylda framleiðendur til að setja ESC búnað í alla nýja bíla fyrir 2012 og hvetja til þess að ákveðinn verði einn og sami staðall um þennan búnað sem gildi um allan heim og að Evrópusambandið lögbindi sömu tímamörk og Bandaríkjamenn hafa þegar gert.

Samkvæmt upplýsingum NHTSA kostar ESC búnaður neytandann einungir 111 dollara. Búnaðurinn hins vegar dregur úr líkum á útafakstri og öðrum eins bíls slysum um 34% og forðar 5.300 til 10.300 dauðaslysum í Bandaríkjunum á ári og 168.000 til 252.000 alvarlegum meiðslum.

Leiðtogar FIA hvetja til pólitískra aðgerða til að hraða innleiðingu ESC í bílaflotann í Evrópu. Þeir benda á fordæmi FIA setti af stað mikla hvatningarherferð í því skyni að efla meðvitund almennings um gagnsemi ESC búnaðar. Þá hvetja þeir stjórnvöld einstakra Evrópuríkja til að beita fjárhagslegum ívilnunum til að hvetja fólk til að velja fremur nýja bíla með ESC búnaði en bíla án hans.

Þessa stundina er ESC yfirleitt staðalbúnaður í vandaðri og dýrari bílum en ýmist aukabúnaður eða jafnvel ófáanlegt í smábílum og bílum af minni meðalstærð. Þetta þýðir að mjög stór hluti nýrra og nýlegra bíla er án búnaðarins og ökumönnum þeirra og farþegum því miklu hættara við að lenda í alvarlegum slysum en þeim sem aka í dýru bílunum. FIA-leiðtogarnir benda á að fjárhagslegar ívilnanir sem stjórnvöld hugsanlega veittu kaupendum litlu bílanna myndu skila sér margfalt til baka í færri slysum og minni útgjöldum til heilbrigðiskerfisins.

http://www.fib.is/myndir/Maxmosleypresidentfia.jpg„Mér er brugðið að uppgötva að Bandaríkin skuli vera svo miklu fremri í því að nýta sér þennan öfluga rafræna evrópska öryggisbúnað en Evrópumenn sjálfir. Við hljótum að krefjast skýrra svara: Hversvegna er Evrópa að dragast afturúr? Hversvegna gengur hægar en áður að innleiða búnaðinn? Hvað þarf betur að gera til að augu fólks opnist? Það verður að grípa til raunhæfra aðgerða hér og nú til að dauðsföll sem auðveldlega má koma í veg fyrir, eigi sér stöðugt stað,“ sagði Max Mosley í samtali við fréttabréf FIA.

Leiðtogarnir benda jafnframt á að allt of margar hindranir séu á mörgum markaðssvæðum álfunnar í vegi fyrir því að ESC kerfi séu sett í bíla. Af slíkum hindrunum nefna þeir hátt verð á búnaðinum, m.a. vegna tolla og gjalda, áhugaleysi og þekkingarskort sem komi í veg fyrir notkun þessa lífsnauðsynlega búnaðar. Werner Kraus segir í samtali við fréttabréf FIA að efla þurfi vitund almennings um gagnsemi ESC, búnaðurinn verði að vera fáanlegur í alla bíla og stórnvöldum beri að hvetja til að hann sé nýttur. Hann heitir á alla bílaklúbbana innan FIA að styðja þessi markmið í því skyni að fækka umferðarslysum  á vegunum.