Forstjóri Ferrari fer í fússi

Luca di Montezemolo forstjóri Ferrari á Ítalíu sl 23 ár hefur skyndilega hætt störfum og gengið út. Sergio Marchionne forstjóri Fiat/Chrysler hefur bætt á sig stjórninni á Ferrari, en Ferrari er reyndar að fullu í eigu Fiat.

Ástæðan er sögð vera óeining milli Marchionne og Luca di Montezemolo um framtíðarstefnuna. Montezemolo vildi halda áfram að framleiða aðeins um sjö þúsund bíla árlega og selja þá mjög dýrt til útvalinna kaupenda. Marchionne vildi hins vegar gera Ferrari að stórframleiðanda lúxusbíla og keppa við merki eins og Lamborghini (sem Volkswagen á), Mercedes og aðra slíka og samtengja framleiðsluna meira við Chrysler. Þegar hann var spurður um ástæður þess að hann væri hættur, svaraði hann: -Ferrari er nú bandarískt sem markar endalok tímabils. Frá þessu er greint á bandaríska bílavefnum Jalopnik, á vef Reuters fréttaveitunnar og í fréttum Bloomberg.

Luca Cordero di Montezemolo var ráðinn forstjóri Ferrari árið 1991 af þáverandi stjórnarformanni Fiat samsteypunnar; Gianni Agnelli. Montezemolo átti að marka Ferrari framtíðarstefnu en hún hafði verið nokkuð í óvissu frá andláti Enzo Ferrari árið 1988. Áður, eða frá 1974 hafði Montezemolo verið stjórnandi kappakstursdeildar Ferrari samkvæmt stefnu a Enzo Ferrari. Sú stefna skilaði loks eftir rúmlega 20 ára ósigratímabil miklum og góðum árangri árið 1983 þegar Michael Schumacher vann heimsmeistaratitilinn þá og fjögur næstu árin þar á eftir. Það leiddi til tíföldunar á afkomu Ferrari og þreföldunar í sölu Ferraribíla.

Marchionne sagði þegar hann var spurður út í ágreininginn að samræður um framtíð Ferrari og vægi kappaksturs í rekstrinum hefðu endað í blindgötu misskilnings milli manna. Misskilningurinn hefði orðið sýnilegur um síðustu helgi þegar Montezemolo kaus að ganga út. „En ég vil þakka Luca fyrir það sem hann hefur vel gert fyrir Fiat, fyrir Ferrari og fyrir mig persónulega.“