Forstjóri VW boðar tillögu að lausn

Matthias Müller forstjóri VW á blaðamannafundi í Detroit í gær.
Matthias Müller forstjóri VW á blaðamannafundi í Detroit í gær.

Matthias Müller forstjóri VW segist munu leggja til við bandarísk stjórnvöld að nýr hvarfakútur verði settur í útblásturskerfi þeirra 430 þúsund VW bíla í Bandaríkjunum sem voru útbúnir með svikahugbúnaði sem fegrar mæld útblástursmengunargildi. Forstjórinn sagði þetta á blaðamannafundi í gær sem VW hélt í tengslum við opnun bílasýningarinnar í Detroit.  Der Spiegel greinir frá þessu.

Matthias Müller var spurður hvort hann teldi að nýi hvarfinn dygði til þess að koma bílunum réttu megin við lögbundin mengunarmörk í Bandaríkjunum. „Já, við teljum það mögulegt,“ sagði hann. Müller mun eiga fund með Gina McCarthy framkvæmdastjóra bandarísku náttúruverndarstofnunarinnar EPA á miðvikudag og kynna henni nýja hvarfakútinn og leggja til við hana að setja hann í bílana sem um er að ræða. Hann sagðist bjartsýnn á að með nýja hvarfakútnum myndi takast það sem ekki hefur tekist í margra mánaða viðræðum hingað til – að brúa bilið milli EPA og VW og ljúka málinu farsællega fyrir alla aðila. „Ég held að nú getum við loks boðið þá pakkalausn sem EPA hefur ætlast til frá okkur,“ sagði Müller.

Spurður um hvað fleira væri í pakkanum en nýr hvarfakútur, sagði hann að eitt af því væri að VW keypti til baka einhverja þeirra bíla sem um er að ræða í Bandaríkjunum en vildi ekki segja neitt um hversu margir þeir yrðu. Þýska dagblaðið Sueddeutsche Zeitung greindi frá því í liðinni viku að líklega myndi VW neyðast til að taka til baka og endurgreiða bandarískum kaupendum um það bil 115 þúsund bíla. Matthias Müller vildi engu svara um það. Sagði aðeins að „pakkinn“ yrði ræddur á fundinum með Ginu McCarthy og hann væri bjartsýnn á að góð lausn fyndist.

Spurður um málshöfðun bandarískra stjórnvalda á hendur VW og ásakanir um að VW hefði leynt gögnum og hefði ekki komið hreint fram í hneykslismálinu sagði hann að VW hefði gerst sekt um hrikaleg mistök en í Bandaríkjaheimsókninni nú ætti hann eftir að hitta fjölda manns að máli og reyna eftir megni að byggja upp traustið á ný og betri gagnkvæman skilning.