Forstjóri VW: -Ekkert USA-samkomulag í Evrópu

Elzbieta Bienkowska iðnaðarkommissar (ígildi iðnaðarráðherra) Evrópusambandsins. Innfellda myndin er…
Elzbieta Bienkowska iðnaðarkommissar (ígildi iðnaðarráðherra) Evrópusambandsins. Innfellda myndin er af Mattthias Muller forstjóra VW. Hann segist hafa skýrt út fyrir Bienkowska ómöguleika þess að leysa "Dieselgate" málið í Evrópu á sama hátt og í Bandaríkjunum.

Forstjóri Volkswagen hafnar alfarið umleitunum um að ljúka dísilhneykslinu í Evrópu á sama hátt og verður gert í Bandaríkjunum. Í viðtali við dagblaðið Welt am Sonntag segir hann að bandaríska niðurstaðan eigi ekki við í Evrópu og yrði auk þess allt of dýr.

Elzbieta Bienkowska iðnaðarkommissar (ígildi iðnaðarráðherra) Evrópusambandsins lýsti þeirri skoðun sinni í sl. viku að Volkswagen bæri að gera með sama hætti upp við evrópska eigendur dísilbíla og bandaríska. Það væri ósanngjarnt að gera verr við þá evrópsku af þeirri ástæðu einni að lagaumhverfi í Evrópu væri öðruvísi en í Bandaríkjunum. Gjörðin væri sú sama beggja vegna Atlantshafsins og sama lausn væri sanngirnismál.

„Staðan er önnur í Evrópu,“ sagði Matthias Muller við Welt am Sonntag aðspurður um þetta og bætti við að það myndi koma mjög illa niður á fjárhag VW að leysa málið með sama hætti í Evrópu. Það þyrfti engan stærðfræðing til að reikna það út. Hann kvaðst hafa rætt við Elzbietu Bienkowska og skýrt sín sjónarmið sem m.a. væru þau að mengunarlög og reglugerðir í Bandaríkjunum væru miklu strangari en í Evrópu sem þýddi það að viðgerð og uppfærsla bílanna væri flóknari. Þá geta bandarísku bílaeigendurnir en ekki þeir þýsku, valið um hvort þeir selji VW bílana eða eigi þá áfram en láti lagfæra þá. Bandarísk yfirvöld ætlist til þess að VW kaupi aftur sem flesta af bílunum. Þessvegna verði VW að bjóða upp á ýmsa hvata í formi sérkjara og –tilboða til að viðskiptavinirnir standi ekki bíllausir eftir. Allt þetta sýni að staðan er allt önnur í Bandaríkjunum en í Evrópu.