Framkvæmdir við breikkun Reykjanesbrautar á undan áætlun
Framkvæmdir við breikkun Reykjanesbrautar á kaflanum Krýsuvíkurvegur – Hvassahraun ganga mjög vel. Um er að ræða kaflann framhjá Álverinu. Unnið er víða á kaflanum og útlit fyrir að verkinu ljúki á undan áætlun.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni ganga framkvæmdir vel og eru á undan áætlun. Verkinu skal að fullu lokið 30. júní 2026 en það er allt útlit fyrir að það verði fyrr.
Þó nokkrar þrengingar á umferð eru á svæðinu við Álverið og svaraði Vegagerðinni því til við fyirspurn FÍB að líklega fara þær eftir því í hvaða fasa verkefnið er hverju sinni. Þrengingar eru núna þar sem verið er að vinna við undirgöng í Straumsvík. Þetta er vinnusvæði þar til framkvæmdum lýkur og ekki með sama hætti allan verktímann.
Verkefnið er síðasti áfangi í tvöföldun Reykjanesbrautar á um 5,6 km kafla við álverið í Straumsvík auk brúarmannvirkja og undirganga fyrir akandi, gangandi og hjólandi.
Á Reykjanesbraut verða gerð mislæg gatnamót við Rauðamel en þar er að finna nýtt framtíðar byggingarsvæði Hafnarfjarðar. Mislæg gatnamót við Straumsvík verða stækkuð og bætt við tengingu að iðnaðarsvæði Hafnarfjarðar við Álhellu. Einnig verða gerðir eftirlitsstaðir við Reykjanesbraut og stofnstígur fyrir gangandi og hjólandi milli Hraunavíkur og Straums ásamt tengingu við Straumsvík.
Anna Elín Jóhannsdóttir, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni, segir að í heildina hafi framkvæmdir gengið hratt og vel fyrir sig þrátt fyrir að unnið sé á umferðarþungu svæði. „ÍAV, verktakinn sem vinnur að framkvæmdinni, á hrós skilið fyrir góða skipulagningu og vel unnið verk,“ segir hún.
Búið er að malbika hluta af kaflanum, eða frá Hafnarfirði að álverinu, auk þess sem vegrið og veglýsing hafa verið sett upp. Til stendur að vinna í lögnum Carbfix og Ísal á núverandi Reykjanesbraut og hleypa umferð á nýja kaflann meðan á þeirri vinnu stendur. Að því loknu verður tvöföldun Reykjanesbrautar tilbúin frá Hafnarfirði að Straumsvík, sem gæti mögulega verið með vorinu ef allt gengur samkvæmt áætlun.
Helstu áskoranir hafa verið mikil umferð og hraðakstur á Reykjanesbrautinni, að sögn Önnu Elínar. „Vinnusvæðamerkingar hafa verið áskorun en það hafa því miður orðið slys þrátt fyrir merkingar samkvæmt reglum. Við sem stöndum að verkinu þ.e. teymi verkkaupa, eftirlits og verktaka höfum verið í stöðugri úrbótavinnu og leitað leiða til að tryggja öryggi vegfarenda sem best. Að vinna slíkt verkefni í íslensku vetrarveðri er einnig áskorun,“ upplýsir Anna Elín.