Framkvæmdum við Dýrafjarðargöng miðar vel áfram

Framkvæmdir við Dýrafjarðargöng ganga vel en í viku 3 voru grafnir 79,0 metrar í göngunum sem er nýtt met í greftri á einni viku. Þetta kemur fram á vestfirska vefmiðlinum bb.is. Heildarlengd ganganna í lok viku 3 var 981 metrar sem er 18,5% af heildarlengd ganganna. Jarðlög í stafni samanstóðu af lögum af karga, basalti og kargabasalti.

Fram kemur á vefnum að allt efni úr göngunum er keyrt í vegfyllingu og er verið að lengja og hækka veginn. Nýi vegurinn er kominn um 1000 m frá gangamunnanum og er búinn að tengjast gamla veginum rúma 100 m norðan við Hófsá.

Suðurverk og tékkneska verktakafyrirtækið Metrostav annast framkvæmdir. Fyrsta sprenging í göngunum var 14. september og framkvæmdum því miðað vel áfram.

Framkvæmdin felur í sér lagningu nýs vegar og nýrra ganga á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar á Vestfjörðum, frá Mjólkárvirkjun í Arnarfirði að Dýrafjarðarbrú; 8,1 km af nýjum vegi og 5,6 km langra ganga. Því er um að að ræða 13,7 km langt vegstæði. Stytting á Vestfjarðarvegi verður 27,4 km.