Framleiðsla á Opel Astra burt frá Þýskalandi

Þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung greinir frá því að von sé á róttækum breytingum í rekstri og bílaframleiðslu hjá Opel í Rüsselsheim innan tíðar. General Motors sem á Opel með húð og hári er að sögn blaðsins orðið þreytt á stöðugum taprekstri Opel og ætli að draga stórlega úr bílaframleiðslunni í Rüsselsheim og m.a. flytja framleiðsluna á Opel Astra annað. Umskiptin verði þegar ný kynslóð Opel Astra fer í fjöldaframleiðslu.

Stjórnendur GM eru sagði hafa komist að þeirri niðurstöðu að framleiðslan á Opel Astra sé alltof dýr í Rüsselsheim, ekki síst vegna þess hve verksmiðjustarfsfólkið hefur góð laun. Því verði að flytja hana eitthvert annað, t.d. til Póllands eða jafnvel til láglaunaríkja eins og Mexíkó, S. Kóreu eða Kína. Ef þetta verður gert stefnir í að lúxusbíllinn Opel Insignia verði eini Opelbíllinn sem framleiddur verður í Rüsselsheim.

Saga Opel bílaframleiðslunnar er órjúfanlega tengd Rüsselsheim. Þar hafa höfuðstöðvarnar alla tíð verið. Stofnandinn, Adam Opel fæddist þar árið 1837 og stofnaði fyrirtæki sitt árið 1862, sem svo varð að bílaverksmiðju, árið 1899. General Motors eignaðist Opel árið 1931.

Stéttarfélög starfsmanna eru ekki ánægð með þessar hugmyndir móðurfélagsins GM: Talsmenn þeirra segja að þessar hugmyndir séu álíka fráleitar eins og að láta sér detta í hug að hætta að byggja Volkswagenbíla í Wolfsburg. GM-forystan hefur þrýst undanfarið á stéttarfélögin um launalækkanir, eða uppsagnir að öðrum kosti og vísað til áralangs uppsafnaðs rekstrartaps sem nú er talið nema um 16 milljörðum dollara árlega. En hendur GM manna til stórfelldra rekstrar- og skipulagsbreytinga eru bundnar af gömlu samkomulagi við verkalýðsfélögin um að ekkert slíkt gerist fyrr en eftir að árið 2013 er liðið.