Framleiðsluaukning hjá Bugatti

http://www.fib.is/myndir/Bugatti_veyron.jpg
Bugatti Veyron.

Hert verður á framleiðslunni á hinum rándýra ofursportbíl Bugatti Veyron sem Volkswagen framleiðir. Ársframleiðslan hefur verið 50 eintök en þeim verður fjölgað í 70 á ári. Forstjóri Bugatti segir í samtali við þýskt bílablað að biðtíminn eftir nýjum Bugatti Veyron sé nú 14-15 mánuðir og það þyki viðskiptavinunum of langt. Árleg framleiðsluaukning um 20 bíla ætti að stytta þann biðtíma nokkuð.

Það eru einkum bílakaupendur í Bandaríkjunum sem eru óþolinmóðir og óþreyjufullir að bíða eftir sínum ofursportbílum. Hjá þeim er líka tíminn peningar og Bugatti Veyron er sannarlega ekki neinn fátæklingabíll því að verðið við verksmiðjudyr er um ein milljón evra. Ef einhver er að hugsa um að fá sér svon bíl hér á landi þá bætist ofan á milljón evrurnar flutningskostnaður til Íslands. Þar á ofan leggst svo 45 prósenta vörugjald og í ofanálag kemur svo 25 prósenta virðisaukaskattur. Hér á landi yrði endanlega verðið því um 155 milljónir króna á götuna.

Bugatti Veyron er því einn dýrasti fólksbíll sögunnar og sjálfsagt mun hann halda verðgildi sínu nokkuð vel því að einungis er ætlunin að framleiða 300 eintök af bílnum. Gert er ráð fyrir því að flest eintökin fari til Bandaríkjanna. Auto Motor & Sport hefur eftir Bernd Pieschetsrieder forstjóra Volkswagen samstæðunnar að byrjað sé að huga að nýjum Bugatti sem verði arftaki Veyron. Hugsanlegt sé að sá verði minni og ódýrari en Veyron, en áreiðanlega verður hann þó nógu dýr samt.